Innlent

Stjórn segir upp­bygginguna þrek­virki en frjálsíþróttirnar harma stöðuna

Árni Sæberg skrifar
Skessan í Kaplakrika var fyrsta knatthús FH með knattspyrnuvelli í fullri stærð.
Skessan í Kaplakrika var fyrsta knatthús FH með knattspyrnuvelli í fullri stærð. Vísir/Vilhelm

Aðalstjórn FH segir þrekvirki hafa verið unnið við byggingu íþróttamannvirkja í Kaplakrika við erfiðar efnahagsaðstæður. Frjálsíþróttadeild félagsins segist harma þá stöðu sem félagið er komið í vegna málsins.

Í gær var greint frá nokkuð dökkri skýrslu sem Deloitte vann fyrir Hafnarfjarðarbæ vegna fyrirhugaðra kaupa bæjarins á Skessunni, knatthúsi sem opnað var með pompi og prakt árið 2019.

Þar kemur fram að um fjörutíu prósent af byggingarkostnaði við knatthúsið fór í greiðslur til formanns félagsins og fyrirtækja sem bróðir hans er í forsvari fyrir. Spurningar eru uppi um hvort að allt að 120 til 130 milljónir hafi verið réttilega færðar sem hluti af byggingarkostnaðinum.

Gagnsæi ríki í rekstrinum

Aðalstjórn FH sá sig knúna til að gefa út yfirlýsingu vegna málsins í gær þar sem ástæður þess hvers vegna stendur til að bærinn kaupi knatthúsið eru raktar, meðal annars.

Þar segir að tilgangur þess að fá Deloitte að borðinu hafi verið að fá raunhæft verðmat á Skessunni og tryggja að góð vinnubrögð hafi verið viðhöfð við framkvæmdina. Gegnsæi ríki í rekstri FH og Deloitte hafi fengið fullan aðgang að bókhaldi félagsins við vinnslu skýrslunnar. Félagið hafi sýnt mikinn samstarfsvilja gagnvart þessu verkefni. Einnig skuli bent á að ársreikningar FH og starfseininga þess séu endurskoðaðir og aðgengilegir sem opinber gögn.

Ósammála endurskoðendunum

Seinni skýrsla Deloitte sýni að byggingarkostnaður Skessunnar hafi verið vel innan skekkjumarka miðað við kostnaðaráætlun eða 2,5 til 4 prósent. Um kaupverð segi Deloitte í fyrri skýrslunni: „Uppreiknaður raunkostnaður FH við framkvæmdirnar nemur 1.529 milljónum króna, miðað við verðlag í mars 2024. Telur Deloitte að viðeigandi væri að Hafnarfjarðarbær myndi horfa til þess kaupverðs, í samræmi við raunkostnað framkvæmdarinnar.“

Í yfirlýsingu stjórnarinnar segir að við þessa umsögn Deloitte sé nauðsynlegt að bæta þeim upplýsingum að fyrirtækið dragi frá, í seinni skýrslunni, upphæð raunkostnaðar eignfærðar 127 milljónir króna, sem séu styrkir, afslættir og samstarfssamningar við styrktaraðila félagsins í tengslum við byggingu Skessunnar. 

Frá byggingu Skessunnar sumarið 2019.Vísir/Vilhelm

„FH er ósammála þeirri ráðstöfun Deloitte, enda hefði bygging Skessunnar ekki verið möguleg án þessarar viðleitni velunnara félagsins.“

Eðlileg hækkun

Í skýrslu Deloitte kom fram að engin viðbygging hafi verið í upphaflegri kostnaðaráætlun vegna byggingar Skessunnar en ákvörðun um að bæta slíkri við hafi stóraukið kostnað. Aðalstjórn FH segir þetta einfaldlega rangt. 

Inni í upphaflegri kostnaðaráætlun hafi verið viðbygging upp á 84 fermetra. Við upprunalega kostnaðaráætlun hafi bæst 216 fermetra stækkun á viðbyggingu. Sé það leiðrétt sé raunbyggingarkostnaður Skessunnar tuttugu prósent hærri en upprunalega hafi verið áætlaður. Sú hækkun eigi sér eðlilegar útskýringar vegna hækkunar á verðlagi yfir það sjö ára tímabil sem það tók að klára framkvæmdina.

Greiðslur til bræðranna vel þekktar

Það sem sló marga við lestur skýrslu Deloitte voru nokkuð háar greiðslur til bræðranna Viðars og Jóns Rúnars Halldórssona eða félögum þeim tengdum. Viðar er formaður FH og Jón Viðar var um árabil formaður knattspyrnudeildar félagsins.

Aðalstjórnin segir að greiðslur til Viðars upp á 72,8 milljónir króna, fyrir að stýra byggingu Skessunnar, hafi verið greiddar yfir tíu ára tíma. Frá 2015 þegar fyrstu teikningar af húsinu voru gerðar þar til 2024 þegar framkvæmdir við húsið kláruðust.

Einnig komi fram í skýrslunni að knatthús FH og ytri byrði þeirra hafi verið keypt frá finnska fyrirtækinu Best Hall með milligöngu Jóns Rúnars. Upphæðin sem FH greiddi til Best Hall fyrir ytra byrði og uppsetningu hússins hafi verið um fjórðungur byggingarkostnaðar hússins.

Jón Rúnar Halldórsson var formaður knattspyrnudeildar FH frá 2005 til 2019.Vísir/ArnarHalldórsson

„Báðar staðreyndirnar eru vel þekktar og hafa legið fyrir um árabil. Hagkvæmnissjónarmið réðu för þegar þessi högun var ákveðin af félaginu.“

Mannvirki Hauka miklu dýrari

Aðalstjórn segir ekkert annað knatthús í fullri stærð á Íslandi hafi verið byggt á jafn hagkvæman hátt og Skessan. Lægsta tilboð sem barst Hafnarfjarðarbæ í húsið á sínum tíma frá öðrum en FH hafi að núvirði verið 200 milljón krónum hærra en núvirtur raunbyggingarkostnaður hússins í bókum félagsins í dag.

„Til að finna ákveðið samhengi í virði þessara mannvirkja, þá er áætlað virði knattspyrnumannvirkja á umráðasvæði FH í Kaplakrika í dag er um 3.200 milljónir króna og þar af á félagið sjálft um 2.000 milljónir króna. Til samanburðar má nefna að áætlað virði knattspyrnumannvirkja á umráðasvæði Hauka á Ásvöllum er í dag um 5.000 milljónir króna. Hafnarfjarðarbær á öll þau mannvirki. Þá má bæta við til upplýsinga að iðkendur knattspyrnu í FH eru í dag tæplega 1.200, en hjá Haukum eru þeir liðlega 600.“

Hafnfirðingar megi vera stoltir

Í niðurlagi yfirlýsingar aðalstjórnarinnar segir að bygging hinna þriggja knatthúsa FH í Kaplakrika sé stærsta einkaframkvæmd íþróttafélags í Íslandssögunni. Mannvirkin hafi öll verið reist af hagkvæmni og litlum efnum, knúin áfram af þrautseigu félagsfólki í sjálfboðastarfi með dyggum stuðningi velunnara og styrktaraðila félagsins.

Viðar Halldórsson er formaður FH.Vísir

„Þar var unnið þrekvirki við efnahagsaðstæður, sem meirihluta byggingartímans voru erfiðar í bæði sveitarfélaginu og þjóðfélaginu. Hafnfirðingar geta verið stoltir af afrakstrinum, enda um einstaka framkvæmd að ræða. Samstarf FH við Hafnarfjarðarbæ í þessu máli hefur verið farsælt og náið og félagið er þakklátt fyrir það bakland sem það hefur í sveitarfélaginu.“

Frjálsíþróttadeildin hafi aldrei fengið krónu

Frjálsíþróttadeild FH sendi sömuleiðis frá sér yfirlýsingu vegna málsins. Þar segir að frjálsíþróttadeildin harmi þá stöðu sem aðalstjórn félagsins er komin í hvað varðar fjárreiður og rekstur Skessunnar.

Samkvæmt skýrslu Deloitte sé margt óljóst og umdeilanlegt hvað varðar bókhald og meðferð fjármuna, svo vægt sé til orða tekið.

„Þær upplýsingar sem þar koma fram eru skellur fyrir íþróttastarfsemina í Hafnarfirði. Það skal tekið fram að frjálsíþróttadeildin hefur aldrei fengið greiðslur frá Aðalstjórn FH vegna rekstrartaps enda hefur deildin kappkostað að hafa sinn rekstur réttum meginn við núllið í gegnum árin.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×