Enski boltinn

Lofar að ó­heppni Liverpool-nýliðinn spili í kvöld

Sindri Sverrisson skrifar
Federico Chiesa mætir væntanlega til leiks með Liverpool í kvöld. Hér er hann brosandi í leik með U21-liði félagsins gegn danska liðinu Nordsjælland.
Federico Chiesa mætir væntanlega til leiks með Liverpool í kvöld. Hér er hann brosandi í leik með U21-liði félagsins gegn danska liðinu Nordsjælland. Getty/Nick Taylor

Ítalski landsliðsmaðurinn Federico Chiesa hefur sáralítið spilað síðan hann kom til Liverpool í sumar en nú gæti verið að rofa til hjá þessum 27 ára fótboltamanni.

Chiesa var fyrsti maðurinn sem hollenski stjórinn Arne Slot fékk til Liverpool (markvörðurinn Giorgi Mamardashvili hafði þá reyndar verið keyptur en lánaður strax til baka til Valencia) og vonir stóðu til þess að eftir erfið hnémeiðsli, sem héldu honum frá keppni í tíu mánuði árið 2022, gæti þessi frábæri kantmaður blómstrað á nýjan leik á Anfield.

Hingað til eru leikirnir hins vegar bara orðnir þrír, og mínúturnar innan vallar samtals 78 í búningi Liverpool. Síðast kom Chiesa við sögu 25. september en hann hefur síðan verið frá keppni vegna vöðvameiðsla.

Í kvöld tekst Liverpool á við stjóralaust lið Southampton í enska deildabikarnum, í beinni útsendingu á Vodafone Sport, og þar má búast við því að sjá Chiesa spila.

„Þetta er svo sannarlega tækifæri til þess að hann spili,“ sagði Slot á blaðamannafundi í gær en bætti við að ekki væri hægt að búast við níutíu mínútna leik hjá Ítalanum.

„Federico mun ná mínútum [í kvöld]. Hvort það verður í byrjunarliði eða sem varamaður í seinni hálfleik er ákvörðun sem við tökum,“ sagði Slot sem sjálfur verður ekki á hliðarlínunni í kvöld vegna leikbanns, eftir þrjú gul spjöld.

Leikur Southampton og Liverpool hefst klukkan 20 á Vodafone Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×