Maðurinn var ákærður fyrir að veitast að ungum dreng með því að taka í hálsmál peysu hans, toga hann að sér, með þeim afleiðingum að drengurinn rakst í sæti. Síðan hafi hann sleppt honum aftur í sætið þannig að drengurinn hlaut mar á höfði, handlegg og læri.
Í ákærunni segir að með þessu hafi maðurinn ógnað drengnum og sýnt honum vanvirðandi háttsemi, yfirgang og ruddalegt athæfi.
Í upprunalegri ákæru málsins, sem ákæruvaldið gerði breytingar á, sagði að maðurinn hefði jafnframt öskrað á drenginn að hann skyldi þegja.
Maðurinn játaði brot sitt og var því sakfelldur samkvæmt ákæru. Líkt og áður segir hlaut hann þrjátíu daga skilorðsbundinn dóm. Þá er honum gert að greiða drengnum 250 þúsund krónur.