Innlent

Vaktin: Ný ríkis­stjórn kynnt fyrir landanum

Samúel Karl Ólason, Jón Ísak Ragnarsson, Heimir Már Pétursson og Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifa
Ný ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur á sínum fyrsta ríkisráðsfundi á Bessastöðum sem hófst síðdegis í dag.
Ný ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur á sínum fyrsta ríkisráðsfundi á Bessastöðum sem hófst síðdegis í dag. Vísir/Vilhelm

Ný ríkisstjórn Flokks fólksins, Samfylkingarinnar og Viðreisnar var kynnt Íslendingum í dag. Þá kynntu valkyrjurnar svokölluðu; Inga Sæland, Kristrún Frostadóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir stjórnarsáttmála þeirra og ráðherra.

Ráðuneyti Lilju Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, verður lagt niður og verkefni færð á þrjú önnur ráðuneyti.

Kristrún Frostadóttir verður forsætisráðherra. Alma Möller verður heilbrigðisráðherra. Logi Már Einarsson verður menningar- og nýsköpunarráðherra og Jóhann Páll Jóhannsson verður umhverfisráðherra.

Þorgerður Katrín fer í utanríkisráðuneytið. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir verður dómsmálaráðherra. Hanna Katrín Friðriksson verður atvinnuvegaráðherra og Daði Már Kristófersson verður fjármála- og efnahagsráðherra, utan þings.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, verður félagsmálaráðherra. Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra, og Eyjólfur Ármannsson verður samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Útsendingu frá blaðamannafundinum má sjá hér að neðan.

Þar voru einnig kynntar helstu áherslur flokkanna fyrir ríkisstjórnarsamtarfið, sem komu fram í 23. punkta stefnuyfirlýsingu.

Dagskráin í dag

Dagskrá dagsins er í grófum dráttum á þann veg að dagurinn hófst klukkan níu þegar nýir þingflokkar ríkisstjórnarflokkanna funduðu og lögðu formennirnir þar fram tillögu að ráðherraskipan. Í kjölfarið fóru flokksráð flokkanna yfir stjórnarsáttmálann.

Klukkan eitt var svo blaðamannafundur í Hafnarborg í Hafnarfirði þar sem ríkisstjórnin og ráðherraskipan var kynnt.

Um klukkan þrjú fer fráfarandi ríkisstjórn svo á ríkisráðsfund með Höllu Tómasdóttur, forseta. Klukkan hálf fimm hefst svo ríkisráðsfundur nýrrar ríkisstjórnar, þar sem forsetinn mun skipa nýtt ráðuneyti.

Fylgst verður með vendingum dagsins í Vaktinni á Vísi hér að neðan. Ef hún birtist ekki gæti þurft að endurhlaða síðuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira
×