Innlent

Vaktin: Ný ríkis­stjórn kynnt fyrir landanum

Samúel Karl Ólason, Jón Ísak Ragnarsson og Heimir Már Pétursson skrifa
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Kristrún Frostadóttir og Inga Sæland.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Kristrún Frostadóttir og Inga Sæland. Vísir/Vilhelm

Ný ríkisstjórn Flokks fólksins, Samfylkingarinnar og Viðreisnar var kynnt Íslendingum í dag. Þá kynntu valkyrjurnar svokölluðu; Inga Sæland, Kristrún Frostadóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir stjórnarsáttmála þeirra og ráðherra.

Hér að neðan má sjá beina útsendingu frá Bessastöðum, þar sem Heimir Már er staddur.

Ráðuneyti Lilju Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, verður lagt niður og verkefni færð á þrjú önnur ráðuneyti.

Kristrún Frostadóttir verður forsætisráðherra. Alma Möller verður heilbrigðisráðherra. Logi Már Einarsson verður menningar- og nýsköpunarráðherra og Jóhann Páll Jóhannsson verður umhverfisráðherra.

Þorgerður Katrín fer í utanríkisráðuneytið. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir verður dómsmálaráðherra. Hanna Katrín Friðriksson verður atvinnuvegaráðherra og Daði Már Kristófersson verður fjármála- og efnahagsráðherra, utan þings.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, verður félagsmálaráðherra. Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra, og Eyjólfur Ármannsson verður samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Útsendingu frá blaðamannafundinum má sjá hér að neðan.

Þar voru einnig kynntar helstu áherslur flokkanna fyrir ríkisstjórnarsamtarfið, sem komu fram í 23. punkta stefnuyfirlýsingu.

Dagskráin í dag

Dagskrá dagsins er í grófum dráttum á þann veg að dagurinn hófst klukkan níu þegar nýir þingflokkar ríkisstjórnarflokkanna funduðu og lögðu formennirnir þar fram tillögu að ráðherraskipan. Í kjölfarið fóru flokksráð flokkanna yfir stjórnarsáttmálann.

Klukkan eitt var svo blaðamannafundur í Hafnarhúsinu í Hafnarfirði þar sem ríkisstjórnin og ráðherraskipan var kynnt.

Um klukkan þrjú fer fráfarandi ríkisstjórn svo á ríkisráðsfund með Höllu Tómasdóttur, forseta. Klukkan hálf fimm hefst svo ríkisráðsfundur nýrrar ríkisstjórnar, þar sem forsetinn mun skipa nýtt ráðuneyti.

Fylgst verður með vendingum dagsins í Vaktinni á Vísi hér að neðan. Ef hún birtist ekki gæti þurft að endurhlaða síðuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira
×