Framtíð Rashford hefur á allra vörum undanfarið en hann var ekki í leikmannahópi Manchester United þegar liðið lagði erkifjendurna í Manchester City síðustu helgi og ekki heldur í deildarbikarnum gegn Tottenham í fyrradag.
Sjálfur sagðist hann vera tilbúinn fyrir nýja áskorun í viðtali í vikunni og gaf þannig kjaftasögum um brotthvarf hans frá liðinu byr undir báða vængi.
Ruben Amorim, knattspyrnustjóri Manchester United, hefur sjálfur sagt að United séu betri með Rashford innan borðs og þá hefur BBC eftir sínum heimildarmönnum að Rashford vilji vera áfram í United þar sem hann hefur leikið allan sinn feril. Af hverju Amorim heldur honum utan hóps kemur þó ekki heim og saman við þessa fullyrðingu.
Einn stærsti steinninn í götu United, vilji liðið raunverulega selja Rashford, er sú staðreynd að Rashford er á svimandi háum launum hjá félaginu og ekki líklegt að mörg lið séu tilbúin að greiða honum 300.000 pund á viku líkt og hann fær á Old Trafford.
Orðið á götunni er að United skoði nú möguleikann á að lána Rashford í janúar og eru þrjú lið í Sádí-Arabíu sögð áhugasöm en það eru Al Ahli, Al Ittihad og Al Qadsiah. Hjá Al Ahli myndi Rashford hitta fyrir landa sinn Ivan Toney en hann var einmitt orðaður við United í sumar.
United mætir Bournemouth á morgun klukkan 14:00 og Amorim hefur gefið í skyn að Rashford snúi aftur í liðið í þeim leik.