Enski boltinn

Rooney hættur að þjálfa Guð­laug Victor

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Wayne Rooney fékk Guðlaug Victor Pálsson til síns liðs, en hefur nú hætt störfum hjá Plymouth Argyle.
Wayne Rooney fékk Guðlaug Victor Pálsson til síns liðs, en hefur nú hætt störfum hjá Plymouth Argyle. getty

Þjálfarinn Wayne Rooney og enska félagið Plymouth Argyle hafa ákveðið að slíta samstarfinu. Hann mun því ekki þjálfa landsliðsmanninn Guðlaug Victor Pálsson áfram, eins og hann hefur gert hjá tveimur mismunandi liðum undanfarin tvö ár. 

Rooney tók við starfinu í janúar eftir að hafa verið rekinn frá Birmingham. Honum rétt tókst að bjarga liðinu frá falli á síðasta tímabili, en nú stefnir í það, liðið er í neðsta sæti Championship deildarinnar og án sigurs í síðustu níu leikjum.

Ásamt Rooney munu tveir aðstoðarþjálfarar hans, Mike Phelan og Simon Ireland, hætta störfum. Kevin Nancekivell verður áfram og stýrir liðinu í næsta leik, ásamt Joe Edwards, fyrirliða liðsins.

„Þakkir til alls starfsfólksins sem bauð mig velkominn og gera félagið svo sérstakt, til leikmanna og þjálfara fyrir þeirra framlag og til stuðningsmanna fyrir þeirra stuðning. Ég óska ykkur alls hins besta í framtíðinni.

Plymouth Argyle mun alltaf eiga sérstakan stað í hjarta mínu, og ég mun halda áfram að fylgjast með félaginu og halda með liðinu,“ sagði Rooney í tilkynningu Plymouth Argyle.

Ákvörðunin er sögð sameiginleg. Óvíst er hvað Rooney tekur sér nú fyrir hendur en hann hefur þjálfað alveg frá því að leikmannaferlinum lauk árið 2021. Fyrst hjá Derby County og síðan D.C. United, en þá fékk hann Guðlaug Victor einnig til liðsins, líkt og hjá Plymouth Argyle. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×