Lífið

John Capodice er látinn

Magnús Jochum Pálsson skrifar
John Capodice lék lögreglumanninn Aguado í Ace Ventura eins og eftirminnilegt er.
John Capodice lék lögreglumanninn Aguado í Ace Ventura eins og eftirminnilegt er. Warner Bros.

Bandaríski leikarinn John Capodice er látinn 83 ára að aldri. Hann átti farsælan fjögurra áratuga feril sem karakterleikari í Hollywood.

Andlát Capodice var tilkynnt á vefsíðu Pizzi-útfararstofu í New Jersey. Þar kemur fram að Capodice hafi látist mánudaginn 30. desember 2024.

Capodice fæddist 25. desember 1941 í Chicago í Illinois. Hann gegndi herþjónustu fyrir bandaríska herinn í Kóreu frá 1964 til 1966. Hann hóf síðan leiklistarferilinn á sviði í New York á seinni hluta áttunda áratugarins. Fyrsta hlutverk Capodice á skjánum var í sjónvarpsþættinum Ryan's Hope árið 1978 og fjórum árum síðar lék hann í myndinni Q: The Winged Serpent.

Eftir það fór boltinn að rúlla og næstu áratugi lék hann í gríðarlegum fjölda sjónvarpsþátta og kvikmynda, yfirleitt sem karakterleikari í smáhlutverkum, gjarnan sem mafíósi, gamaldags lögga eða hrjúf verkamannatýpa.

„Góð spurning, Aguado!“Warner Bros

Karakterleikari par exelans

Tíundi áratuginn var stærsti áratugur Capodice og þar lék hann í sínum þekktustu hlutverkum, þar á meðal sem sérstaklega eftirminnilegur eigandi þvottahúss í annarri seríu Seinfeld og sem lögreglumaðurinn Aguado í Ace Ventura: Pet Detective

Glöggir muna að Ace Ventura og Aguado elduðu sérstaklega grátt silfur saman eins og sjá má hér að neðan.

Þar að auki lék Capodice í Speed, Naked Gun 33 1/3, Independence Day og Wall Street og fjölmörgum öðrum myndum. Alls voru hlutverk hans í sjónvarpi og kvikmyndum 159 talsins.

Capodice skilur eftir sig eiginkonuna Jane Capodice, dæturnar Tessa De Pierro og Cassandra Hansen og barnabörnin David, Jake, Frankie og Giuliönu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.