Albert ekki með þegar Fiorentina stein­lá gegn Napoli

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Romelu Lukaku átti góðan leik í kvöld.
Romelu Lukaku átti góðan leik í kvöld. EPA-EFE/CLAUDIO GIOVANNINI

Albert Guðmundsson var á varamannabekk Fiorentina þegar Napoli kom í heimsókn í Serie A, efstu deild ítalska fótboltans. Fór það svo að gestirnir unnu þægilegan 3-0 sigur.

David Neres kom Napoli yfir eftir rétt tæpan hálftíma eftir undirbúning Romelu Lukaku. Heimamenn jöfnuðu metin sex mínútum síðar en marki Moise Kean var dæmt af vegna rangstöðu. Staðan því enn 0-1 þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks.

Snemma í síðari hálfleik fengu gestirnir vítaspyrnu og þar brást Lukaku ekki bogalistin þó David De Gea markvörður heimamanna hafi verið duglegur að verja vítaspyrnur á leiktíðinni.

Það var svo hinn skoski Scott McTominay sem gulltryggði sigur Napoli með þriðja marki liðsins þegar 22 mínútur lifðu leiks. Fleiri urðu mörkin ekki í dag og lokatölur 0-3.

Napoli lyftir sér á topp deildarinnar með sigri dagsins og er nú með 44 stig. Atalanta kemur þremur stigum þar á eftir en á þó leik til góða. Albert og félagar eru í 6. sæti með 32 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira