Innlent

Bíl­stjórinn á Ásvöllum á­kærður fyrir mann­dráp af gá­leysi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá slysstað á Ásvöllum í október 2023.
Frá slysstað á Ásvöllum í október 2023. Vísir/Vilhelm

Bílstjóri steypubíls, sem ók á dreng á Ásvöllum í Hafnarfirði með þeim afleiðingum að hann lést, hefur verið ákærður fyrir manndráp af gáleysi. Þetta staðfestir Hildur Sunna Pálmadóttir sviðsstjóri hjá ákærusviði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Slysið varð 30. október 2023, þegar Ibrahim Shah Uz-Zaman átta ára hjólaði inn á bílastæði milli Ásvallalaugar og íþróttahúss Hauka í Hafnarfirði. Ökumaður steypubílsins kom akandi úr sömu átt, beygði inn á stæðið og ók á Ibrahim, sem lést samstundis. 

Bílstjórinn hefur nú verið ákærður eins og áður segir. Aðalmeðferð í málinu er á dagskrá 20. janúar næstkomandi í Héraðsdómi Reykjaness, að sögn Hildar Sunnu. Bílstjórinn er einn ákærður í málinu.

Samar, systir Ibrahims (hvítklædd til vinstri) á minningarstund við slysstað í október í fyrra, þegar ár var liðið frá slysinu.Vísir/Sigurjón

Rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsakaði slysið og birti skýrslu sína í dag. Þar kemur fram að bílstjórinn hafi ekki veitt Ibrahim athygli, drengurinn hafi líklega verið sýnilegur í hliðarspeglum bílsins í rúmar tuttugu sekúndur fyrir slysið. Þá sé sennilegt að stefnuljós hafi ekki verið notað þegar slysið varð.


Tengdar fréttir

Ibra­him hafi horfið sjónum bíl­stjórans í fá­einar sekúndur

Ökumaður vörubifreiðar sem ók á átta ára dreng á hjóli á Ásvöllum í Hafnarfirði í október 2023, með þeim afleiðingum að drengurinn lést, veitti umferð hjólandi vegfarenda ekki athygli áður en slysið varð. Þetta er niðurstaða rannsóknarnefndar samgönguslysa. 

Íhuga að fara í skaðabótamál vegna andláts Ibrahims

Fjölskylda Ibrahim Shah Uz-Zaman íhuga að fara í skaðabótamál vegna andláts hans. Hann lést 30. október á síðasta ári í umferðarslysi á Ásvöllum í Hafnarfirði. Rannsókn lögreglu lauk í janúar á þessu ári en enn er málið hjá ákærusviði og ekki verið tekin ákvörðun um hvort gefa eigi út ákæru. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×