Upp­gjörið: Grindavík-Haukar 79-71 | Tor­sóttur skyldusigur Grind­víkinga

Siggeir Ævarsson skrifar
Daniel Mortensen var öflugur hjá Grindvíkingum í kvöld með 15 stig, 8 fráköst, 7 varin skot og 6 stoðsendingar.
Daniel Mortensen var öflugur hjá Grindvíkingum í kvöld með 15 stig, 8 fráköst, 7 varin skot og 6 stoðsendingar. Vísir/Anton

Grindvíkingar lentu í vandræðum með botnlið Hauka á heimavelli í Bónus deild karla í körfubolta í kvöld en lönduðu að lokum átta stiga torsóttum sigri, 79-71.

Það voru tvö lið í þröngri stöðu sem mættust í Smáranum í kvöld. Grindvíkingar í krísu að eigin sögn og Haukar á botni deildarinnar þrátt fyrir tvo sigra í röð. Sigur algjört lykilatriði fyrir bæði lið upp á framhaldið að gera.

Leikurinn hófst fremur stirðlega hjá báðum liðum, mögulega skjálfti í mönnum enda töluvert í húfi. Grindvíkingar náðu þó takti varnarlega og upp tíu stiga forskoti og leiddu með sjö eftir fyrsta leikhlutann sem Hilmir Arnarson lokaði með þrista, staðan 25-18.

Munurinn hélst um það í þeirri tölu næstu tíu mínútur, Grindvíkingar skrefi á undan en Haukar aldrei langt undan. DeAndre Kane var mættur aftur eftir langt jólafrí og skoraði 13 stig í fyrri hálfleik, augljóst að Grindvíkingar hafa saknað hans.

Staðan í hálfleik 47-39 eftir að Oddur Rúnar Kristjánsson setti flautukörfu eftir sóknarfrákast. Hans fyrstu stig í leiknum sem komu á hárréttum tíma.

Haukar hófu seinni hálfleikinn af krafti, skoruðu fimm fyrstu stigin og minnkuðu muninn í þrjú stig. Það var þó það næst sem Haukar komust Grindvíkingum það sem eftir lifði leiks. Heimamenn náðu að halda muninum eftir þetta um það bil í tíu stigum með smá sveiflum en sigurinn var alls sannfærandi.

Sóknarleikur beggja liða í loka leikhlutanum var afskaplega dapur en Grindvíkingar skoruðu ekki körfu úr opnum leik fyrr en rúmar fimm mínútur voru liðnar af honum. Þeir náðu þó að halda út og kláruðu þetta á seiglunni.

Það má færa þennan sigur til bókar sem skyldusigur fyrir Grindavíkinga á botnliði deildarinnar en það er ljóst að krísustjórnun Jóhanns Þórs er ekki lokið.

Atvik leiksins

Um miðjan annan leikhluta virtist Jordan Aboudou fá þungt högg í andlitið undir körfunni. Ekkert var dæmt en Jordan ráfaði út af vellinum og virtist hálf vankaður þar sem hann féll harkalega á auglýsingaskiltin. Hann fór svo alblóðugur af velli en heimildum ber ekki saman um hvort skurðurinn hafi komið við kjaftshöggið eða þegar kappinn lenti illa á skiltunum.

Stjörnur og skúrkar

DeAndre Kane kom ferskur inn eftir þriggja leikja frí, skoraði 22 stig og hirti níu fráköst en hitti þó aðeins úr tveimur vítum í átta tilraunum.

Daniel Mortensen var frábær á köflum, endaði með 15 stig, átta fráköst, sex stoðsendingar og sjö varin skot. Hann setti tvo tandurhreina þrista úr erfiðum færum en klikkaði svo úr öllum hinum sjö tilraunum sínum fyrir utan.

Hjá Haukum var það Everage Richardson sem var hvað líflegastur sóknarlega með 20 stig og bætti við sjö fráköstum. Steven Jr Verplancken kom næstur með 16.

Haukarnir munu eflaust naga sig í handabökin yfir lélegri vítanýtingu í kvöld, en hún var aðeins 59 prósent og fóru fjögur í röð forgörðum í upphafi fjórða leikhluta.

Dómararnir

Davíð Tómas Tómasson, Birgir Örn Hjörvarsson og Bjarni Hlíðkvist Kristmarsson dæmdu leikinn í kvöld. Þeir létu leikinn flæða vel í fyrri hálfleik en aðeins voru ellefu villur flautaðar samtals fyrstu 20 mínúturnar. 

Heilt yfir fín frammistaða hjá þríeykinu.

Stemming og umgjörð

Umgjörðin hjá Grindvíkingum í Smáranum er auðvitað alltaf upp á tíu. Meðlimir Stinningskalda voru mættir en voru fremur rólegir í tíðinni miðað við oft áður. Stemmingin heilt yfir fremur róleg í kvöld.

Viðtöl



Friðrik Ingi: „Leikmenn sem þurfa bara að fá að hlaupa aðeins af sér hornin og læra að þeir geta hlutina“

Friðrik Ingi Rúnarsson þegar hann skrifaði undir samning við Hauka fyrr í mánuðinumFacebook/@haukarbasket

Það verður ekki tekið af Haukum að þeir gáfust aldrei upp í kvöld og náðu að gera spennandi leik úr þessu í seinni hálfleik, en það vantaði herslumuninn, og líka að setja niður vítin að sögn Friðrik Inga Rúnarssonar, þjálfara liðsins.

„Það hjálpaði ekki, sérstaklega í seinni hálfleik þegar við vorum alltaf að komast nær og nær, þá vorum við að misnota talsvert af vítaskotum sem að telur. Svo kannski líka opin skot hér og þar en það er bara eins og gengur. Ég var ánægður með ákveðinn anda í hópnum og mér fannst margt bara vera jákvætt.“

„En auðvitað eru þarna hlutir sem við þurfum að læra af og verða betri í og þarna eru auðvitað líka leikmenn sem þurfa bara að fá að hlaupa aðeins af sér hornin og læra að þeir geta hlutina. Það tekur kannski bara smá tíma. En við löguðum svolítið í seinni hálfleik, þeir skoruðu 34 í teignum í fyrri hálfleik, en við héldum því í einhverjum tólf, fjórtán í seinni þannig að við náðum aðeins að stýra því betur. En við höldum bara áfram!“

Friðrik hefur ekki fengið langan tíma til að stilla saman strengi hjá liðinu en hann tók við Haukum fyrir viku síðan. Hann er þó hvergi banginn þrátt fyrir þrönga stöðu.

„Ég náttúrulega gerði mér algjörlega grein fyrir þessu verkefni þegar ég tók það að mér og vissi það auðvitað að staðan væri snúin. Með það fyrir framan okkur að halda okkur í deildinni. Það er auðvitað þannig að við þurfum að eiga nokkra sigurleiki og síðan eru auðvitað önnur lið sem eru þarna fyrir ofan okkur. Við þurfum að koma tveimur niður fyrir okkur. Við gerum okkur alveg grein fyrir því og ég geri mér grein fyrir því að staðan er eins og hún er. “

„En mér finnst andinn í þessu góður. Þarna er talsverður efniviður og mikið af íslenskum ungum strákum sem þurfa bara að fá smá tíma. Ég held að klúbburinn geri sér líka alveg grein fyrir því og það skiptir máli hvernig við vinnum úr þessum seinni hluta núna. En svo er aldrei að vita, það er möguleiki. Það eru ennþá níu leikir eftir og við bara höldum ótrauðir áfram og mætum bara galvaskir í hvern leik og svo sjáum við til.“

Friðrik átti eðli málsins samkvæmt engu aðkomu að samsetningu leikmannahóps Hauka og segir það ekki hafa komið til tals að gera breytingar á hópnum.

„Það hefur lítið verið rætt um það og ég hef nú sagt það í viðtölum áður að ég gerði enga kröfu um slíkt. Ég geri mér alveg grein fyrir því líka að þetta þarf svo sem allt að ganga í takt og félagið þarf líka bara að vera skynsamt í sínum ráðagerðum varðandi stöðuna og allt það. Þannig að við reynum bara að gera hlutina af yfirvegun en allavega eins og staðan er núna þá er þetta hópurinn og við ætlum enn sem komið er bara að vinna með hann. Mitt hlutverk er að gefa þeim byr í seglinn og gera þá eins tilbúna í þetta og hægt er. Svo bara sjáum við hvað setur.

Jóhann Þór: „Við erum að reyna að einbeita okkur að því sem við getum gert“

Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari GrindavíkurVísir/Viktor Freyr

Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindvíkinga, sem sagði Grindvíkinga vera í krísu eftir síðasta leik, var spurður hvernig krísustjórnunin gengi eftir sigur kvöldsins.

„Þetta er allt bara í rétta átt held ég. Held að við séum bara orðnir helvíti sjóaðir í þessu. En að öllu gamni slepptu þá erum við bara að reyna að komast á þann stað sem við viljum vera. Það gengur brösulega en sigur í kvöld, kærkominn sigur eftir erfiðar vikur og bara sáttur við það.“

Grindvíkingar hleyptu Haukum í tvígang nokkuð nærri sér og voru ekki góðir sóknarlega í fjórða leikhluta. Þessi frammistaða hefði sennilega kostað þá sigurinn oftar en ekki miðað við frammistöðuna framan af vetri.

„Alveg hundrað prósent sko. Eins og við höfum bara talað um, við erum oft að ströggla á hálfum velli, erum svolítið staðir. Einhvern veginn að bíða eftir einstaklingsframtaki. Svo voru Haukarnir að skipta á öllu sem við bjuggumst ekki við sem riðlaði þessu aðeins. En samt, við hefðum átt að vera skarpari en kredit á Haukana, þeir gerðu vel. En við erum að reyna að einbeita okkur að því sem við getum gert og það er bara áframhaldandi vinna framundan. Við förum austur eftir viku, það verður bara stuð og stemming.“

Jóhann var ánægður með að fá DeAndre Kane til baka og mæta til leiks með fullskipað lið.

„Hann náttúrulega nýtist okkur mjög vel bæði í vörn og sókn. Sennilega einn af betri varnarmönnum deildarinnar og það munar bara mikið um hann. Einn af okkar sterkustu hestum. Það munar klárlega að hafa hann og bara ánægjulegt að hann sé búinn að ganga frá sínum málum heimafyrir og kominn heim, eða kominn hingað.“

Sigur í næsta leik gegn Hetti gæti reynst Grindvíkingum afar dýrmætur til að ná takti og slíta sig frá hinum þétta pakka sem hefur myndast í neðri hluta deildarinnar en það munar aðeins tveimur sigrum á Grindavík sem situr í fjórða sæti og ÍR sem situr í því tíunda.

„Það er bara eins og ég hef komið inn á í viðtölum í vetur. Hver sigur í þessari deild er bara afskaplega mikilvægur og við erum að fara austur í næstu viku. Mjög mikilvægt að ná í góða liðsframmistöðu þar og kreista út tvö stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira