Albert Guðmundsson var í byrjunarliði Fiorentina þegar liðið tapaði 2-1 gegn botnliði Monza á útivelli. Albert og félagar hafa nú spilað fimm leiki án sigurs.
Það gekk ekki mikið upp hjá gestunum í fyrri hálfleik og voru þeir marki undir þegar gengið var til búningsherbergja eftir að Patrick Curria kom heimamönnum yfir eftir tæplega hálftíma leik.
Albert var tekinn af velli í hálfleik en það verður ekki sagt að hans mönnum hafi gengið betur án hans. Daniel Maldini, sonur Paolo, tvöfaldaði forystuna eftir undirbúning Pedro Pereira eftir rúma klukkustund og brekkan orðin brött fyrir Fiorentina.
Þegar rúmur stundarfjórðungur var til leiksloka náðu gestirnir hins vegar fótfestu í brekkunni þegar þeir fengu vítaspyrnu. Lucas Beltran steig á punktinn og þrumaði boltanum í netið. Svo föst var spyrnan að þó Stefano Turati hafi haft hönd á boltanum þá tókst markverðinum ekki að koma í veg fyrir mark gestaliðsins.
Gestunum tókst hins vegar ekki að jafna metin og leiknum lauk með 2-1 sigri Monza. Það þýðir að Monza sem hafði ekki unnið leik síðan 21. október er nú með 13 stig á botni deildarinnar. Fiorentina er á sama tíma með 32 stig í 6. sæti, fjórum stigum minna en Lazio sem situr í 4. sæti eftir að hafa spilað einum leik meira.