Fótbolti

Sjöunda tap Leicester í röð

Siggeir Ævarsson skrifar
Ruud van Nistelrooy fórnar höndum á hliðarlínunni í dag
Ruud van Nistelrooy fórnar höndum á hliðarlínunni í dag vísir/Getty

Ruund van Nistelrooy og lærisveinar hans í Leicester eiga ekki sjö dagana sæla í ensku úrvalsdeildinni þessa dagana en liðið hefur ekki unnið deildarleik síðan 3. desember á síðasta ári. Liðið tapaði í dag á heimavelli gegn Fulham 0-2.

Þetta var sjöunda tap liðsins í röð í deildinni og situr liðið næst neðsta sæti með 14 stig. Til allrar lukku fyrir liðið þá eru liðin í sætunum fyrir ofan að gera álíka gott mót og einn sigur gæti lyft liðinu upp úr fallsæti.

Tveir aðrir síðdegisleikir voru á dagskrá á sama tíma í deildinni. Brentford var hársbreidd frá því að verja stigið á heimavelli gegn toppliði Liverpool en varamaðurinn Darwin Nunez reddaði málum fyrir horn í uppbótartíma með tveimur mörkum. 

Þá bíður David Moyes eftir sínum fyrsta sigri sem stjóri Everton en liðið tapaði 0-2 á heimavelli gegn Crystal Palace þar sem Jean-Philippe Mateta skoraði bæði mörkin.

Síðasti leikur dagsins er svo viðureign Arsenal og Aston Villa sem hefst núna klukkan 17:30 og verður í beinni textalýsingu hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×