Fótbolti

Monaco með mikil­vægan sigur á Aston Villa

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Wilfried Singo fagnar marki sínu.
Wilfried Singo fagnar marki sínu. EPA-EFE/SEBASTIEN NOGIER

Monaco vann mikilvægan 1-0 sigur á Aston Villa í baráttunni um sæti meðal efstu átta liðanna í Meistaradeild Evrópu. Þá vann Atalanta 5-0 stórsigur á Sturm Graz.

Wilfied Singo skoraði það sem reyndist sigurmark Monaco þegar lærisveinar Unai Emery frá Birmingham-borg á Englandi komu í heimsókn. Lokatölur 1-0 og bæði lið nú með 13 stig þegar þau aðeins einn leik eftir áður en hefðbundinni deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu lýkur.

Morgan Rogers og félagar í Aston Villa komust lítt áleiðis í kvöld.EPA-EFE/SEBASTIEN NOGIER

Að henni lokinni fara efstu átta liðin beint í 16-liða úrslit á meðan liðin í 9. til 24. sæti fara í umspil um sæti í 16-liða úrslitum. Eftir leik kvöldsins er Aston Villa í 7. sæti á meðan Monaco er í 9. sæti.

Á Gewiss-vellinum í Bergamo var Sturm Graz í heimsókn og var staðan 1-0 Atalanta í vil þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks. Hinn sjóðheiti framherji Mateo Retegui með markið.

Retegui getur ekki hætt að skora.EPA-EFE/MICHELE MARAVIGLIA

Mark hafði þegar verið dæmt af heimamönnum þegar Mario Pašalić tvöfaldaði forystuna á 58. mínútu. Fimm mínútum síðar hafði Charles De Ketelaere bætt þriðja marki Atalanta við.

Ademola Lookman bætti því fjórða við á lokamínútu venjulegs leiktíma og Marco Brescianini skreytti kökuna með fimmta marki heimamanna þegar fimm mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma, lokatölur 5-0.

Atalanta er í 3. sæti með 14 stig.

Charles de Ketelaere fagnar marki sínu.EPA-EFE/MICHELE MARAVIGLIA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×