Innlent

Hætta rann­sókn á skip­verjunum á Hugin

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Lögreglan í Vestmannaeyjum hefur hætt rannsókninni.
Lögreglan í Vestmannaeyjum hefur hætt rannsókninni. Vísir/Vilhelm

Sakamálarannsóknum á skipverjum Hugins VE-55 frá Vestmannaeyjum hefur verið felld niður. Þeir voru til rannsóknar vegna skemmda á vatnsleiðslu og ljósleiðarastreng til Vestmannaeyja.

Frá þessu er greint á vef Ríkisútvarpsins. Lögreglan hefur haft málið til rannsóknar frá því í nóvember 2023, en þá féll akkeri skipsins frá borði með þeim afleiðingum að neysluvatnlögn HS Veitna til Vestmannaeyja skemmdist verulega. Áætlað er að viðgerð muni kosta um einn og hálfan milljarð og geti tekið allt að tvö ár.

Skipstjóri, yfirstýrimaður og yfirvélstjóri höfðu fengið réttarstöðu sakborninga við rannsóknina, en hafa hana ekki lengur. Í lok 2023 sagði framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, sem gerir út skipið, að ljóst væri að tveir skipverjanna hefðu vanrækt skyldur sínar í tengslum við atvikið, sem hafi sett neysluvatnskerfi Vestmannaeyinga í uppnám.

Bæjarráð Vestmannaeyjabæjar ákvað á síðasta ári að höfða mál til skaðabóta gegn Vinnslustöðinni vegna málsins. Við það tilefni sagði Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri að tilraunir til samtals við Vinnslustöðina hefðu ekki borið árangur. 

„Einhver verður að borga, hverjir þá aðrir en bæjarbúar. Þess vegna getum við ekki setið hjá og sent bæjarbúum þennan reikning án þess að láta á þetta reyna,“ sagði Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri vegna málsins í sumar.

Forsvarsmenn vinnslustöðvarinnar hafa vísað til til ákvæða siglingalaga sem heimila að takmarka tjónabæturnar við 360 milljónir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×