Leðurblakan fannst fyrir utan heimili í Teigunum í Laugardal, þar sem hún virtist frosin við vegg utandyra. Lilja Borg birti myndband því þegar maður frá dýraþjónustunni hafði leðurblökuna á brott í háfi.
Þorkell Heiðarsson, líffræðingur og deildarstjóri hjá Dýraþjónustu Reykjavíkur, segir að leðurblakan hafi verið orðin slöpp.
„Hún var horuð, illa á sig komin, enda komin á versta tíma til að heimsækja landið. Hún var eiginlega við það að drepast,“ segir Þorkell.
Leðurblakan hafi verið svæfð og blóðsýni tekið úr henni, sem verði sent á rannsóknarstofuna Keldur. Farið verði í veirurannsókn til að athuga hvort varhugaverðir sjúkdómar leynist í dýrinu.
„Leðurblökur eru miklir smitberar, og geta meðal annars borið með sér hundaæði,“ segir Þorkell.
Að því loknu verði hún send á náttúrufræðistofnun þar sem hún verður tegundagreind.
Þorkell segir að síðast þegar leðurblaka kom til landsins hafi það verið evrópsk tegund sem lifir í Skandinavíu og á Bretlandseyjum.
Í gær sást til leðurblökunnar í Laugardalslaug. Fyrst varð hennar vart þar sem hún hékk á útiklefa laugarinnar, áður en hún flaug yfir laugina. Sjá frétt DV.
