Þórir Hergeirsson hefur auðvitað gert það sjö sinnum með kvennalið Noregs en enginn Íslendingur hafði áður náð þessu á HM karla.
Þetta verður því í fyrsta sinn sem íslenskur þjálfari fær tækifæri til að spila um verðlaun á HM í handbolta.
Dagur gæti vissulega fengið annan í hópinn í kvöld þegar Alfreð Gíslason stýrir þýska landsliðinu á móti Portúgal í átta liða úrslitum. Ísland gæti því verið með tvo þjálfara í undanúrslitum fari allt vel hjá Alfreð.
Íslenskir þjálfarar höfðu nokkrum sinnum setið eftir í átta liða úrslitum í gegnum tíðina og um tíma leit það út að ætla einnig að verða hlutskipti Dags.
Dagur og lærisveinar hans í króatíska landsliðinu tókst hins vegar að vinna upp fjögurra marka forskot Ungverja á lokakaflanum og tryggja sér eins marks sigur, 31-30. Króatar skoruðu fimm síðustu mörk leiksins.
Degi hafði mistekist áður að komast í gegnum átta liða úrslitin. Þýska landsliðið tapaði 26-24 á móti heimamönnum í Katar í átta liða úrslitum á HM 2015. Tveimur árum síðar sló Katar þýska liðið út í sextán liða úrslitunum en í millitíðinni gerði Dagur þýska liðið að Evrópumeisturum.
Alfreð Gíslason þekkir það að tapa í átta liða úrslitum með íslenska landsliðinu en Ísland tapaði 41-42 á móti Dönum í framlengdum leik í átta liða úrslitum á HM í Þýskalandi 2007. Hann tapaði líka með þýska landsliðinu í átta liða úrslitum fyrir tveimur árum þegar liðið tapaði 35-28 á móti Frakklandi.
Guðmundur Guðmundsson hefur verið nálægt því að komast í undanúrslit með íslenska landsliðinu en oftast var þá um milliriðil að ræða áður en kom að undanúrslitum. Guðmundur tapaði hins vegar með Dönum á móti Spánverjum í átta liða úrslitum á HM í Katar 2015.
Guðmundur stýrði danska landsliðinu á bæði HM 2015 og HM 2017 en það eru einu heimsmeistaramótin á undanförnum tveimur áratugum þar sem Danir hafa ekki spilað um verðlaun á HM.
Þorbjörn Jensson fór með íslenska landsliðið í átta liða úrslit á HM 1997 en íslenska liðið tapaði þá á móti Ungverjum. Það er enn besti árangur Íslands á heimsmeistaramóti því liðið vann keppnina um fimmta sætið.
Annar íslenskur þjálfari hefur einnig tapað í átta liða úrslitum en það er Kristján Andrésson sem fór með Svía í átta liða úrslitin HM 2017 þar sem Svíar töpuðu 30-33 á móti Frökkum. Á næsta heimsmeistaramóti á eftir voru engin átta liða úrslit heldur bara milliriðliar og undanúrslit. Sænska liðið endaði þá í fimmta sæti undir stjórn Kristjáns.