Í tilkynningu frá Veðurstofunni segir að snjór hafi sjatnað á Vesturlandi og hann mikið til tekið upp í lágum hlíðum ofan byggðar síðan í gær og nótt. Veðurspár geri ráð fyrir að hlýindin og rigningin séu að mestu gengin yfir og talið sé ólíklegt að stór ofanflóð falli nálægt byggð úr þessu.
Á Austurlandi hefur kólnað í veðri en hitinn er enn yfir frostmarki á láglendi og víða til fjalla. Nokkur krapaflóð hafa fallið yfir vegi á sunnanverðum Austfjörðum.
Fram kemur hjá Veðurstofunni að mesta rigningin virðist gengin yfir, en annað kvöld sé spáð rigningu og þar með sé gert ráð fyrir að óvissustig verði í gildi fram á mánudag af þeim sökum.
Vegfarendur og ferðafólk er hvatt til að sýna aðgæslu á stöðum þar sem grjót og skriður geta fallið og nærri vatnsfarvegum þar sem krapaspýjur geta borist niður.