RÚV greinir frá.
Karlmaður á fertugsaldri sætir ákæru fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás í tengslum við andlát manns í sumarhúsi við Kiðjaberg í Grímsnesi í apríl í fyrra. Maðurinn er ekki ákærður fyrir manndráp.
Karlmaður lést af áverkum sínum í sumarhúsinu eftir að annar veittist að honum. Fram kom í ákærunni að árásin beindist að hálsi, höfði og líkama hins látna og að árásarmaðurinn sló hann meðal annars tvisvar í andlitið með þeim afleiðingum að hann féll í gólfið.
Verjandi mannsins taldi ákæruna óskýra og óskaði eftir því að málinu yrði vísað frá. Héraðsdómur tók undir með verjanda að atburðarrásinni hafi ekki verið lýst með fullnægjandi hætti og því uppfylli ákæran ekki skilyrði laga um meðferð sakamála.
Ákæruvaldinu veitt of mikið svigrúm
Elimar Hauksson, verjandi sakborningsins, segir að þarna sé ákæruvaldinu veitt of mikið svigrúm til að orða verknaðarlýsingu ákæru með óljósum hætti.
„Umbjóðandi minn, vörnum hans verður áfallt. Hverju er hann að verjast? Hvað er það sem hann á að hafa gert umrætt sinn? Það vantar lýsingu á einhverri tiltekinni háttsemi,“ segir hann.
Hann segir að staðan sé í raun þannig að verið sé að fara í aðalmeðferð þar sem umbjóðanda hans sé gefið að sök að hafa með margþættu ofbeldi, sem að beindist að höfði, hálsi og líkama manns, orðið honum að bana.
„Það er ekki tilgreint högg, eða spörk eða kyrkingar, eða laminn með kylfu, eða stunginn. Það eru svona hlutir sem maður sér alltaf í ákæru.“
Hann segir að í þessari stöðu sé umbjóðandi hans settur í þá stöðu að þurfa geta í eyðurnar um það hvaða háttsemi honum er gefið að sök í refsimáli.
„Á einhverjum tímapunkti ertu kominn í þá stöðu að maður veit ekki hvar maður á að byrja eða enda í vörnum,“ segir hann.