Innlent

Al­þjóða­sam­fé­lagið þurfi að venjast nýrri taktík Trump

Lovísa Arnardóttir skrifar
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrrverandi utanríkisráðherra Samfylkingarinnar og Pawel þingmaður Viðreisnar og formaður utanríkismálanefndar Alþingis.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrrverandi utanríkisráðherra Samfylkingarinnar og Pawel þingmaður Viðreisnar og formaður utanríkismálanefndar Alþingis. Vísir/Eina og Vilhelm

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrrverandi utanríkisráðherra og Pawel Bartoszek alþingismaður og formaður utanríkismálanefndar segja alþjóðasamfélagið þurfa að venjast nýrri taktík í pólitík með tilkomu Donald Trump í embætti forseta Bandaríkjanna í annað sinn. Gott sé fyrir Íslendinga að vera í fleiri bandalögum en færri.

„Þetta er hans taktík. Hann hendir öllum spilastokknum upp í loft og maður veit ekki hvar hann lendir,“ segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrrverandi utanríkisráðherra um Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, og fullyrðingar hans um Grænland.

Ingibjörg ræddi utanríkismál, Bandaríkin og Grænland í Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Með henni var Pawel Bartoszek. 

Ingibjörg segir Trump geta komið með annað útspil hvenær sem er og nefnir sem dæmi yfirlýsingar hans varðandi Gasa. Hún segir utanríkisstefnu Trump vera „19. aldar“ og byggja á landfræðilegri stöðu og legu. Þess vegna horfi hann til Kanada, Panama og Grænlands.

„Að þetta sé áhrifasvæði Bandaríkjanna og svæði sem þeir stjórna. Og við erum auðvitað inni á því áhrifasvæði og við þurfum að velta fyrir okkur hvað þetta felur í sér fyrir okkur.“

Það sé mikilvægt í þessari stöðu að vera ekki með öll eggin í einni körfu. Íslendingar gætu til dæmis í þessari stöðu horft meira til Evrópu.

Djarfar hugmyndir í samningaviðræður

Pawel tekur undir með Ingibjörgu með stíl Trump. Hann hafi djarfar hugmyndir og noti þær í samningaviðræðum. Sem dæmi hafi tollastríðsyfirlýsingar hans orðið þess valdandi að landamæraeftirlit hafi verið eflt við landamæri Mexíkó og Kanada. Pawel segir að þannig þurfi að taka yfirlýsingum Trump með fyrirvara.

„Þetta er ákveðin taktík sem við þurfum að venjast en í því ljósi myndi ég ekki fara í of miklar „hvað ef“ fabúleringar út af einhverjum ítrustu hugmyndum,“ segir Pawel. 

Hann tekur undir með Ingibjörgu og segir gott fyrir Íslendinga að vera í fleiri bandalögum en færri. Í því samhengi nefnir hann fund leiðtoga Norðurlandanna sem fjallað var um nýlega sem Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra, var ekki á.

„Það er fjöldi funda í hverri viku sem við mætum ekki á vegna þess að við erum ekki partur af þeim hópi sem þar fundar.“

Það sé því skynsamlegt að efla tengslin við Evrópu og EES-svæðið allt. Það sé svo þjóðarinnar að ákveða hversu langt verður stigið í þeim málum.

Valdastjórnun

Ingibjörg segir að með Trump komi ný tegund af stjórnun inn í Hvíta húsið. Hingað til hafi það ekki skipt okkur, eða alþjóðasamfélagið, það miklu máli hvort það sé Repúblikani eða Demókrati í Hvíta húsinu. Það hafi verið stigsmunur en ekki eðlismunur á því.

„Þetta er mjög mikil valdastjórnun,“ segir hún og að allt sem heiti „diplómasía“ sé lagt til hliðar og stjórnað með valdi, valdboði og stórum yfirlýsingum. Við eigum eftir að læra á þetta, sem og aðrir.

„Þetta er ný staða sem við stöndum andspænis,“ segir Ingibjörg og að við þurfum að læra inn á þessa taktík.

Pawel segir nálgun Trump beinskeyttari en fólk í utanríkisþjónustu hefur vanist hingað til. Það verði þó að taka fram að staðan alþjóðlega er ekki alslæm. Sem dæmi hafi tekist að koma á vopnahléi á Gasa og það virðist halda. Stuðningur við Úkraínu hafi haldist sömuleiðis eftir að hann tók við en margir héldu að honum myndi ljúka við það. Þá segir Pawel að hann heyri, frá Úkraínumönnum, að það örli mögulega þar á bjartsýni um að eitthvað geti gerst sem geti bundið enda á átökin þar.

Ingibjörg segir að það sé rétt hjá Trump að við getum ekki vanist því að í Úkraínu sé stríð, að á Gasa sé stríð. Það sé ekki hægt að halda svona áfram. Það sama sé hægt að segja um alþjóðakerfið, sem hún segir alla vita að sé handónýtt. Hann vilji henda því á ruslahauga sögunnar. Það sé afdrifarík og hættuleg ákvörðun en mögulega geti eitthvað gott komið út úr því.

Pawel segir það samt sem áður hag allra að það sé eitthvað alþjóðakerfi. Það sé ekki gott ef það er þannig að „sá sterkasti ræður“. Því verði að standa með öðrum þjóðum af svipaðri stærð og spyrna við fæti.

Bandaríkin ekki lögregla heimsins

Ingibjörg segir Trump tala um Bandaríkin eigi ekki að vera lögregla heimsins. Þau eigi að gæta sinna hagsmuna og borgar þeirra sem skipti máli, en ekki að þeir séu fremstir á meðal jafningja í alþjóðlegu samstarfi.

„Hann vill að Bandaríkin njóti stærðar sinnar og geti beitt vöðvaafli sínu, en ekki í gegnum alþjóðastofnanir,“ segir Ingibjörg og það sé ný mynd í alþjóðakerfinu. 

Niðurskurður hans og lokun á þjónustu USAid hafi til dæmis verulega mikið að segja í fjölmörgum þróunarríkjum sem hafi hingað til stólað á stofnunina fyrir rekstur heilbrigðis- og menntakerfis.

„Þetta hefur mikil áhrif og ég er viss um að í mörgum þróunarríkjum er fólk orðið desperat. Þá er ég ekki bara að tala um stjórnvöld, heldur almenning sem þarf mikið að leita til þessara stofnanna,“ segir Ingibjörg.

Hún segir stofnanir Sameinuðu þjóðanna sem hafi þurft að reiða sig á fjármagn frá Bandaríkjunum ekki vita almennilega hvert þau séu að stefna. Það hafi enginn til dæmis búist við því að hann myndi ganga úr Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. 

Viðtalið var lengra og hægt er að hlusta á það hér að ofan.


Tengdar fréttir

Afturkallar öryggisheimildir Biden

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur afturkallað öryggisheimildir Joe Biden, forvera hans í embætti forseta. Biden gerði slíkt hið sama þegar hann var forseti í kjölfar innrásarinnar í þinghúsið þann 6. janúar 2021. Í tilkynningu Trump segir að auk þess að afturkalla öryggisheimildina eigi að láta af daglegum öryggisfundum með Biden.

Sagði upp hjá DOGE vegna rasískra ummæla

Ungur starfsmaður DOGE, hefur sagt af sér eftir að hann var bendlaður við síðu á samfélagsmiðli þar sem hann lét fjölda rasískra ummæla falla. Hinn 25 ára gamli Marko Elez, hefur komið að vinnu DOGE við að skera verulega niður hjá alríkinu í Bandaríkjunum, undir stjórn Elons Musk, auðugasta manns heims.

Einn höfunda Project 2025 aftur háttsettur í Hvíta húsinu

Öldungadeild Bandaríkjaþings staðfesti í gær tilnefningu Russel Vought í embætti yfirmanns fjárlagaskrifstofu forsetaembættisins. Það er sama áhrifamikla embætti og hann gegndi í fyrri stjórnartíð Trumps en í millitíðinni var Vought einn aðalhöfunda hins umdeilda plaggs, Project 2025.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×