Upp­gjör: Haukar - Sel­foss 29-20 | Haukakonur á­fram ó­stöðvandi á nýju ári

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Rut Jónsdóttir var með fimm mörk og fimm stoðsendingar í kvöld.
Rut Jónsdóttir var með fimm mörk og fimm stoðsendingar í kvöld. Vísir/Anton Brink

Haukar hafa unnið alla leiki sína til þessa í Olís-deild kvenna í handbolta á þessu ári og það breyttist ekki í kvöld.

Haukar fengu Selfoss í heimsókn í kvöld í 15. umferð Olís-deildar kvenna. Lauk leiknum með níu marka sigri Haukakvenna sem eru taplausar síðan 13. Nóvember. Lokatölur 29-20, þar sem leikurinn réðst í upphafi fyrri- og síðari hálfleiks.

Leikurinn fór afar hægt af stað og fór t.a.m. höndin upp hjá dómurunum í fyrstu tveimur sóknum leiksins. Gestirnir skoruðu fyrsta mark leiksins og kom ekki fyrsta mark Hauka fyrr enn á 5. mínútu leiksins. Við þetta fóru hjólin að snúast hjá Haukum og skoraði liðið næstu sex mörk leiksins. Staðan 7-1 eftir 13. mínútur, þar sem Selfyssingum gekk bölvanlega með að skora.

Á næstu mínútum jókst hraðinn í leiknum og nýttu gestirnir sér það og náðu að minnka muninn niður í þrjú mörk, staðan 10-7. Haukar voru þó alltaf skrefinu á undan og áttu góðan lokakafla sem endaði með flautumarki frá Rut Jónsdóttur á lokarandartökum fyrri hálfleiksins. Staðan 15-10 í hálfleik og heimakonur með leikinn í hendi sér.

Haukar hófu síðari hálfleikinn einnig af miklum krafti og skoruðu fjögur af fyrstu fimm mörkum síðari hálfleiksins. Staðan 19-11 og í raun orðið ljóst hvar sigurinn myndi enda.

Ekki var því um spennandi né skemmtilegan leik að ræða í síðari hálfleik þar sem þjálfarar beggja liða nýttu það sem eftir var til að rúlla á liðunum sínum og leyfa minni spámönnum að spila.

Atvik leiksins

Flautumark Rutar undir lok fyrri hálfleiksins var stórkostlegt. Fast undirhandarskot sem söng í netinu, en Selfyssingar höfðu minnkað muninn niður í fjögur mörk aðeins nokkrum sekúndum áður og þetta mark því vont veganesti inn í hálfleikinn fyrir gestina.

Stjörnur og skúrkar

Sara Sif Helgadóttir varði 14 skot í kvöld í marki Hauka og var hreint út sagt frábær allan leikinn. Varnarleikur Hauka var einnig feykilega sterkur á þeim köflum þar sem liðið bjó til sitt forskot.

Hjá Selfyssingum var Ágústa Tanja Jóhannsdóttir langbest, en varði hún 14 skot líkt og Sara Sif.

Eva Lind Tyrfingsdóttir átti ekki góðan dag í horninu hjá Selfossi og klikkaði hún úr fjórum algjörum dauðafærum í leiknum.

Dómarar

Ómar Ingi Sverrisson og Magnús Kári Jónsson voru flottir á flautunni og ekkert út á þá að setja í kvöld.

Stemning og umgjörð

Ekki góð mæting á Ásvelli í kvöld. Stuðningsmenn Hauka þurfa að sýna meiri lit gagnvart sínum konum, enda um frábært lið að ræða sem er komið í 8-liða úrslit í Evrópubikarnum. Umgjörðin hjá Haukum er þó ein sú besta á landinu og ekkert út á hana að setja.

Díana Guðjónsdóttir, þjálfari Hauka.Vísir/Hulda Margrét

Díana Guðjónsdóttir: Þetta var bara svona liðheildardæmi

Haukar unnu í kvöld öruggan níu marka sigur á Selfossi á Ásvöllum, lokatölur 29-20. Díana Guðjónsdóttir, þjálfari Hauka, var sátt með sitt lið sem á erfitt verkefni fyrir höndum um helgina í Tékklandi.

Haukar hófu leikinn gríðarlega vel og var staðan 7-1 eftir um 13. mínútur. Díana vill þakka varnarleiknum og þessari byrjun fyrir það að Haukar náðu í stigin tvö í kvöld.

„Það var fyrst og fremst hvernig við byrjuðum og varnarleikurinn. Það var bara geggjaður varnarleikur, við vorum búin að fá á okkur tvö mörk eftir 14. mínútur en svo er náttúrulega eðlilegt að við missum aðeins dampinn. Sara [Sif Helgadóttir] geggjuð fyrir aftan, en það var fyrst og fremst það hvernig við byrjuðum leikinn og vörnin.“

Haukar hófu síðari hálfleikinn einnig af miklum krafti. Díana segist ekki hafa neina útskýringu á því af hverju liðið hóf báða hálfleika jafnvel og raun bar vitni.

„Nei, en við eigum það til að byrja seinni hálfleikinn illa og erum að reyna snúa því við og erum kannski á þessum tímapunkti að hugsa aðeins meira um okkur, hvernig við ætlum að bæta okkur heldur en hvað aðrir eru að gera.“

Díana var afar sátt með framlag allra sinna leikmanna í kvöld sérstaklega í ljósi þess að mikill álagstími er að hefjast hjá liðinu. Liðið á leik í Evrópubikarnum um helgina og svo er liðið einnig komið áfram í Powerade bikarnum og í harðri baráttu í Olís-deildinni.

„Við erum að fara út á föstudaginn í Evrópukeppni í erfiðan leik, en það sem var líka ótrúlega gott í þessum leik var að margir leikmenn sem skiluðu einhverju í dag sem hafa kannski verið eitthvað taugaveiklaðir í leikjunum á undan eða eitthvað. Inga Dís er að koma geggjuð inn í dag, Thelma [Melsted Björgvinsdóttir], Berglind [Benediktsdóttir] náttúrulega varnarlega, rosalega mikilvægt að hafa svona póst til þess að setja inn á varnarlega. Þannig að það voru margar. Þetta var bara svona liðheildardæmi og margar að skila miklu, bara frábært sko.“

„Mér fannst frábært hvernig stelpurnar mættu í dag, miðað við að við erum að fara út á föstudag. Við erum svolítið að vinna með það að við erum ekkert komnar lengra en það að við þurfum bara að hugsa um okkur og einn leik og einn dag í einu. Meðan við náum að fókúsera á það þá náum við allavegana að skila góðum hlut. Frábært fram undan og vonandi verður þetta ævintýri lengra og skemmtilegra.“

Þessa daganna er lífið bara vinna og handbolti

Haukar mæta Hazena Kynzvart út í Tékklandi í 8-liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar. Díana segir að um sterkt lið sé um að ræða en telur helmingslíkur á því að Haukar fari áfram í undanúrslit keppninnar.

„Ég myndi bara segja að þetta verður erfitt, þetta er fiffty-fiffty myndi ég segja. Við erum búin að sjá aðeins af þessu liði. Þetta er mjög sterkt lið, en þetta er bara ævintýri og við förum bara full tilhlökkunar út til Tékklands á föstudaginn og bara gerum okkar besta og eigum svo heimaleikinn viku seinna, en við eigum náttúrulega Stjörnuna á milli, þannig að það er full dagskrá hjá okkur og þessa daganna er lífið bara vinna og handbolti,“ sagði Díana að lokum.

Eyþór Lárusson: Vantar áræðni varnar- og sóknarlega

„Bara svekktur, svekktur með hvernig við komum inn í leikinn og svona hvernig við spilum hann allan tímann,“ sagði Eyþór Lárusson, þjálfari Selfoss, eftir leik.

Aðspurður hvort hann hefði útskýringu á því hvernig liðið kom inn í leikinn, svaraði Eyþór því neitandi.

„Nei, svo sem ekki sko. Þetta er bara hvernig þú mætir inn í leikinn. Það er eitthvað hugarfar og kraftur sem þarf að vera til staðar þegar þú mætir jafn góðu liði og Haukar eru. Það er bara eitthvað sem við þurfum að átta okkur á ef við ætlum að taka stig á móti þessum toppliðum.“

„Það vantaði fyrst og fremst upp á einföldu atriðin hjá okkur. Fyrir okkur eru það hlaupin heim og það vantar líka áræðni varnar- og sóknarlega, áður en við förum að skoða taktík.“

Selfoss siglir nokkuð lygnan sjó í Olís-deildinni og ef liðið heldur ágætlega vel á spilunum mun liðið enda í fjórða sæti, þar sem Selfoss er staðsett í dag. Eyþór segir það markmið liðsins að halda í það sæti.

„Fyrir okkur er það þannig að við viljum halda í þetta 4. Sæti, það tryggir heimaleikjarétt allavegana í fyrstu umferðinni í úrslitakeppninni og það er bara verkefni sem við tökum alvarlega. Við eigum strax hörku leik á laugardaginn og við verðum bara að finna hvatninguna fyrir okkur og við mætum klárar þá. Leikirnir gegn Gróttu eru alltaf hörku leikir og það verður bara spennandi að sjá hvernig við mætum þá.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira