Úkraínumenn segjast hafa skotið niður sex af sjö skotflaugum og 71 af drónunum. Þar að auki munu fjörutíu drónar hafa verið stöðvaðir með því að trufla kerfi þeirra.
Erfitt er að skjóta niður skotflaugar, sem á ensku kallast „ballistic missiles“ en þær fljúga hátt upp í loftið og falla svo á skotmörk sín á miklum hraða. Takist að skjóta þær niður eru þær því hvort eð er líklegar til að valda skaða á jörðu niðri.
Sjá einnig: Skotflaugar frá Norður-Kóreu orðnar nákvæmari
Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, tjáði sig um árás næturinnar og sagði að ógnarherferð Rússa gegn Úkraínu myndi ekki hætta að sjálfu sér. Kallaði hann eftir samstöðu meðal bakhjarla Úkraínu og sagði árásina til marks um að Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefði ekki áhuga á friði. Hann héldi árásum sínum á Úkraínumenn og úkraínskar borgir áfram.
Reuters hefur eftir embættismönnum í Úkraínu að níu ára gamalt barn sé meðal þeirra sem særðust í Kænugarði.
Þá segir fréttaveitan að árásin hafi einnig valdið tjóni á mikilvægum innviðum í Tjernihív-héraði, þar sem tveir munu hafa særst.
A huge sinkhole has formed in one of Kyiv's districts after a night attack. pic.twitter.com/vkWCvfUoLg
— WarTranslated (@wartranslated) February 12, 2025
Rússar hafa á þeim þremur árum frá því innrás þeirra í Úkraínu hófst skotið aragrúa eldflauga að skotmörkum í Úkraínu. Margar þessara árása hafa beinst að orkuinnviðum.
Undanfarnar vikur hafa Úkraínumenn fjölgað eigin árásum á skotmörk í Rússlandi töluvert. Þar hafa Úkraínumenn notast mikið við eigin sjálfsprengidróna.
Þær beinast margar að innviðum varðandi olíuframleiðslu og vinnslu í Rússlandi og á þeim að vera ætlað að koma höggi á hagkerfi Rússlands og olíubirgðum rússneska hersins.