Varnarmálaráðherrar Atlantshafsbandalagsins ræddu aukinn varnarviðbúnað og fælingarmátt bandalagsins og stuðning bandalagsríkja við Úkraínu á ráðherrafundi sem lauk í Brussel í dag.
Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu kemur fram að á fundinum hafi verið farið yfir helstu aðgerðir og áætlanir sem miði að því að styrkja fælingar- og varnargetu bandalagsins, meðal annars aukin framlög til varnarmála, eflingu herstjórnarkerfisins, ítarlegri áætlanagerð og samstarf ríkjanna á sviði hergagnaframleiðslu og tækniþróunar.
„Það er ljóst að öll bandalagsríki eru að efla sinn varnarviðbúnað og getu. Það þurfum við líka að gera í þéttu samstarfi við okkar nánustu bandamenn. Þá kom það skýrt fram á fundinum að krafan á Evrópuríkin um aukin framlög og fjárfestingar mun aðeins aukast. Á sama tíma er brýnt að styðja við Úkraínu til að styrkja stöðu þeirra og tryggja að Úkraína og Evrópa taki þátt í öllum viðræðum um framtíðarskipan mála til að tryggja varanlegan og réttlátan frið. Eins og ég hef áður sagt, ekkert um Úkraínu án Úkraínu,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra í tilkynningunni.

Þar segir einnig að ráðherrarnir hafi rætt stöðu Úkraínu og Rustem Umerov, varnarmálaráðherra Úkraínu hafi gert grein fyrir stöðu mála. Á fundinum var tilkynnt um áframhaldandi stuðning Íslands við varnir Úkraínu en lagðar verða 400 milljónir í sjóð fyrir sprengjuleit og eyðingu, sem Ísland og Litáen leiða, og aðrar 400 milljónir í verkefni sem Danir leiða til stuðnings varnartengdum iðnaði í Úkraínu.
Þá kemur fram að í tengslum við varnarmálaráðherrafundinn hafi utanríkisráðherra fundað með Christopher G. Cavoli, yfirhershöfðingja Atlantshafsbandalagsins [e. SACEUR] sem jafnframt er yfirmaður herafla Bandaríkjanna í Evrópu. Þau hafi rætt varnarviðbúnað bandalagsins, framlag Íslands til sameiginlegra varna og þróun mála á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum. Í gær fór einnig fram ráðherrafundur ríkjahóps til stuðnings varnarbaráttu Úkraínu [e. Ukraine Defence Contact Group, UDCG] þar sem rætt var um skipulag og framkvæmd stuðnings ríkjanna við Úkraínu meðal annars þjálfunarverkefni, fjárfestingar og útvegun hergagna.