Innlent

Þurftu að stökkva frá bíl sem ekið var gegnum ölvunarpóst

Samúel Karl Ólason skrifar
Alls eru 89 mál bókuð í kerfum lögreglu frá klukkan fimm í gær til fimm í morgun.
Alls eru 89 mál bókuð í kerfum lögreglu frá klukkan fimm í gær til fimm í morgun. Vísir/Vilhelm

Lögregluþjónar höfðu í nógu að snúast í miðbænum gærkvöldi og í nótt vegna slagsmála, hávaða og annarra mála sem tengjast munu skemmtanalífinu. Í einu tilfelli var maður handtekinn eftir að hann réðst á starfsmenn og öryggisverði heilbrigðisstofnunnar. Sá var í annarlegu ástandi og var vistaður í fangaklefa í nótt.

Ökumaður reyndi að komast hjá ölvunarpósti í nótt og ók hann á miklum hraða framhjá þeim lögreglumönnum sem stóðu að ölvunareftirliti. Í dagbók lögreglu segir að þeir hafi þurft að stökkva frá bílnum en ökumaðurinn var handtekinn skömmu síðar.

Þá stöðvuðu lögregluþjónar ökumann sem grunaður var um akstur undir áhrifum fíkniefna en hann reyndist með mikið magn fíkniefna í sölueiningum í bílnum. Hann var einnig handtekinn.

Afskipti þurfti að hafa af manni sem hafði sofnað áfengisdauða í miðbænum og var honum, samkvæmt dagbók lögreglu, komið fyrir í fangaklefa þar til hann getur séð um sig sjálfur.

Lögregla var kölluð til í verslun þar sem maður var gripinn við að stela. Þegar starfsmaður verslunarinnar reyndi að tala við hann tók hann upp sprautunál og hótaði viðkomandi. Hann flúði svo úr versluninni en lögreglan segir málið í rannsókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×