Innlent

Búðarhnuplari í efri byggðum reyndist vera eftir­lýstur

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Maður að hnupla vöru úr verslun. Myndin tengist frétt ekki beint.
Maður að hnupla vöru úr verslun. Myndin tengist frétt ekki beint. GEtty

Maður sem var gripinn við búðarhnupl í verslun og neitaði að segja til nafns reyndist vera eftirlýstur þegar búið var að flytja hann á lögreglustöð.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu fyrir verkefni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá 5 til 17 í dag.

Lögreglunni hafði borist tilkynning um búðarhnupl í verslun í umdæmi lögreglustöðvar 3 sem nær yfir Kópavog og Breiðholt. Málið var afgreitt með skýrslu en benti starfsmaður lögreglu þá á annan mann sem hafði stungið inn á sig vörum í versluninni.

Lögregluþjónar ræddu við manninn sem greiddi fyrir vörurnar en gat ekki greint frá nafni sínu. Var maðurinn handtekinn og fluttur á lögreglustöð þar sem kom í ljós að hann reyndist eftirlýstur.

Þá barst lögreglunni tilkynning um mann sem ógnaði fólki með hníf við geðdeild Landspítalans og braut rúðu við inngang spítalans. Maðurinn hafði fyrr um daginn veist að starfsmanni og kastað í hann stól. Maðurinn var handtekinn og vistaður í fangaklefa.

Ökumenn í alls konar vandræðum

Fimm ölvaðir ökumenn voru stöðvaðir í sérstöku umferðareftirliti lögreglumanna í Kópavogi og Hafnarfirði í morgun. Þeir eigi yfir höfði sér sekt og sviptingu ökuréttinda.

Þá var ökumaður stöðvaður nærri lögreglustöðinni í Hafnarfirði og reyndist vera án ökuréttinda. Honum var gert að hætta akstri. Enn annar ökumaður, „ungur að árum“ samkvæmt lögreglu, missti stjórn á bíl sínum í bílakjallara í Kópavogi og játaði brot sitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×