Innlent

Ganga fylktu liði frá Arnar­hóli

Bjarki Sigurðsson skrifar
Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir er ein af skipuleggjendum Kvennagöngunnar.
Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir er ein af skipuleggjendum Kvennagöngunnar. Vísir

Á alþjóðlegum baráttudegi kvenna ganga konur og kvár fylktu liði frá Arnarhóli í Iðnó þar sem baráttufundur fer fram á eftir. Skipuleggjandi segir daginn sérstaklega mikilvægan í ár vegna umræðunnar í alþjóðasamfélaginu. 

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna er haldinn hátíðlegur 8. mars ár hvert. Í ár standa fjórtán félög að dagskrá og ganga konur frá Arnarhóli klukkan eitt yfir í Iðnó þar sem fer fram baráttufundur. Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir, ein skipuleggjenda, segir daginn sérstaklega mikilvægan í ár.

„Konur eru að missa ýmis réttindi sem þær hafa haft í áratugi. Á sama tíma eru mjög mörg hræðileg stríð. Það er þjóðarmorð í Palestínu og stríð í Úkraínu. Við sjáum þetta í fréttum alla daga. Það er mikill stríðsæsingur í gangi myndi ég segja,“ segir Salvör. 

Ráðamenn heimsins tali eins og stríð sé óumflýjanlegt. Krafa skipuleggjenda sé friður og jafnrétti.

„Þetta eru samtvinnuð barátta fyrir mér og það er svolítið bakslag í þessari baráttu þessa dagana. Kvenréttindi eru fótum troðin, sem má sjá um allan heim, það þarf að berjast meira fyrir réttindum kvenna,“ segir Salvör.

Eftir baráttufundinn í Iðnó verður frekari dagskrá víða um borgina.

„Fólk getur aldeilis farið niður í bæ og sýnt samstöðu og séð flottar ræður, atriði og gjörninga. Það er nokkuð ljóst að það er eitthvað að hreyfast í samfélaginu. Það er hreyfing fyrir jafnrétti og friði á þessum degi,“ segir Salvör.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×