Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti og Marco Rubio utanríkisráðherra Bandaríkjanna eru báðir staddir í Jeddah-borg þar sem fundurinn fer fram þó Selenskí forseti taki ekki beinan þátt í viðræðunum frekar en Donald Trump Bandaríkjaforseti. Hann fór til Jeddah-borgar á fund Múhameðs bin Salman, krúnuprins Sádí-Arabíu.
Í stað Selenskís eru þó utanríkis- og varnarmálaráðherrar ríkisstjórnar hans. Hann birti færslu á samfélagsmiðla í dag þar sem sagði raunsæjar tillögur liggja fyrir.
Þessi fundur er sá fyrsti fulltrúa þjóðanna tveggja síðan Selenskí, Trump og Vance varaforseti munnhjuggust í Hvíta húsinu undir lok síðasta mánuðar. Selenskí var vísað á dyr án þess að næðist að undirrita samning sem kvað á um aðgengi Bandaríkjanna að jarðefnaauðlindum Úkraínu sem til stóð á fundinum.
Í kjölfar fundarins stöðvaði Donald Trump alla hernaðaraðstoð Bandaríkjanna til Úkraínu og lokaði á aðgengi úkraínskra stjórnvalda að njósnaupplýsingum.
Vólódímír Selenskí hefur sagst vera tilbúinn til að undirrita samninginn og segist vongóður um að fundurinn beri árangur hver svo sem sá árangur kann að vera. Breski miðillinn Guardian greinir frá því að gert sé ráð fyrir því að úkraínska sendinefndin hyggist leggja til vopnahléstillögu sem feli í sér bann á flygilda- og eldflaugaárásum auk banns á öllum hernaðaraðgerðum í og yfir Svartahafi.