Erlent

Demokraatit og Naleraq stærstir eftir kosningarnar á Græn­landi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kosið var á 72 stöðum en erfitt að spá fyrir um úrslit þar sem engar skoðanakannanir voru gerðar í aðdraganda kosninganna.
Kosið var á 72 stöðum en erfitt að spá fyrir um úrslit þar sem engar skoðanakannanir voru gerðar í aðdraganda kosninganna. AP/Evgeniy Maloletka

Flokkurinn Demokraatit vann stórsigur í kosningunum í Grænlandi í gær með 29,9 prósent atkvæða. Næstur kom Naleraq, flokkur sjálfstæðissinna sem vilja aukið samstarf við Bandaríkin, með 24,5 prósent.

Stjórnarflokkarnir Inuit Ataqatigiit og Siumut fengu 21,4 prósent og 14,7 prósent atkvæða og Atassut og nýi flokkurinn Quelleq 7,3 og 1,1 prósent.

Inuit Ataqatigiit, flokkur forsætisráðherrans Muté B. Egede, fékk 15 prósent minna fylgi nú en í síðustu kosningum. Egede sagði á Facebook í nótt að hann virti úrslit kosninganna og væri spenntur að heyra hvað hinir flokkarnir hefðu fram að færa í stjórnarmyndunarviðræðum.

Það stæði ekki á Inuit Ataqaigiit.

Úrslitin þykja koma nokkuð á óvart og Steffen Kretz, fréttaritari DR, sagði í morgun að þrátt fyrir að ekkert væri ómögulegt væri erfitt að sjá fyrir sér að Demokraatit og Naleraq færu í samstarf. 

Honum þætti líklegra að Demokraatit myndu reyna að mynda ríkisstjórn með Inuit Ataqatigiit og mögulega Atassut.

Demokraatit vill enda stíga varlegar til jarðar í mögulegum aðskilnaði frá Danmörku en Naleraq hefja ferlið eins fljótt og auðið er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×