Upp­gjör: Fram-Haukar 26-23 | Hefndu fyrir tap í bikar­úr­slita­leiknum

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Steinunn Björnsdóttir skoraði fimm mörk fyrir Framliðið í kvöld.
Steinunn Björnsdóttir skoraði fimm mörk fyrir Framliðið í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Fram vann þriggja marka sigur á Haukum, 26-23, í toppslag í Olís deild kvenna í handbolta. Framkonur hefndu með því fyrir tapið á móti Haukum í bikarúrslitaleiknum á dögunum. 

Þetta var þriðji deildarsigur Fram á Haukum á þessu tímabili. Framkonur voru skrefinu á undan, og gott betur en það, allan leikinn.

Aðeins ellefu dagar eru síðan þessi lið mættust og var það í úrslitum Powerade bikarsins. Þar hömpuðu Haukar sigri og tryggðu sér bikarmeistaratitilinn með nokkuð sannfærandi sigri, 25-20.

Fyrir leikinn sátu liðin í öðru og þriðja sæti deildarinnar bæði með 26 stig, sex stigum á eftir Val. Var því leikurinn mögulegur úrslitaleikur upp á hvort liðið næði öðru sætinu, en bæði liðin eiga aðeins eftir að leika fjóra leiki til viðbótar í deildarkeppninni.

Haukar byrjuðu leikinn á því að skora úr fyrstu sókn leiksins. Í framhaldinu skiptust liðin á því að skora þar til að Fram náði tveggja marka forystu eftir um tólf mínútna leik.

Í framhaldinu varði Darija Zecevic, markvörður Fram, nokkra bolta ásamt því að Haukar töpuðu boltanum klaufalega. Framkonur hömruðu þá járnið á meðan það var heitt á þessum kafla og komust mest í fjögurra marka forystu, 9-5.

Á 24. mínútu tók þjálfarateymi Hauka leikhlé, þremur mörkum undir, 12-9. Nýttist það vel þar sem Haukar náðu að vænka stöðu sína fyrir lok hálfleiksins, en aðeins munaði einu marki á liðunum í hálfleik. Hálfleikstölur 13-12.

Fram hófu síðari hálfleikinn af miklum krafti og skoruðu sex mörk gegn aðeins einu marki frá Haukum á upphafsmínútum síðari hálfleiksins. Staðan 19-13.

Haukakonur náðu að minnka muninn mest niður í tvö mörk í síðari hálfleik. Fram var því alltaf með ágætis forystu og fóru afskaplega vel með hana, á meðan gestirnir töpuðu boltanum oft á tíðum klaufalega.

Fram sigldi sigrinum því í höfn og fóru langt með að tryggja sér annað sæti deildarinnar, sem tryggir það að liðið situr hjá í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Atvik leiksins

Þrátt fyrir að markverðir Haukar náðu ekki upp jafn góðri markvörslu og Darija Zecevic hjá Fram, þá átti Margrét Einarsdóttir, markvörður Hauka, eina frábæra markvörslu í leiknum. Hún varði þá vítaskot Lenu Margrétar Valdimarsdóttur með því að henda sér niður í splitt og verja boltann fallega með tánni.

Stjörnur og skúrkar

Darija Zecevic var heldur betur betri en enginn í markinu í kvöld. Var hún með 15 varða bolta á bak við sterka vörn Fram með þær Berglindi Þorsteinsdóttur og Steinunni Björnsdóttur í broddi fylkingar.

Inga Dís Jóhannsdóttir átti ágætis leik fyrir Hauka og skar liðið oft úr snörunni sóknarlega með góðum skotum fyrir utan. Inga dís endaði með sjö mörk líkt og Elín Klara Þorkelsdóttir í liði Hauka.

Dómarar

Árni Snær Magnússon og Þorvar Bjarmi Harðarson áttu fínan leik. Þó voru að sjálfsögðu nokkrir skrítnir dómar, enda um handboltaleik að ræða.

Stemning og umgjörð

Allt upp á tíu hjá Fram í allri umgjörð. Manni fannst þó aðeins vanta upp á mætinguna hjá stuðningsmönnum beggja liða í jafn stórum leik og um var að ræða í kvöld. Stemningin var þó góð og lét fólk vel í sér heyra sem á leið á leikinn.

Rakel Dögg Bragadóttir.vísir / viktor freyr

Rakel Dögg: Sóknarleikurinn okkar var miklu smurðari

Rakel Dögg bragadóttir, þjálfari Fram, var að vonum sátt að leik loknum. „Bara heilsteypt liðsframmistaða. Við spilum frábæra vörn og Darija flott fyrir aftan. Mér fannst við spila vel sem lið. Sóknarleikurinn okkar var miklu smurðari í dag heldur en í þessum blessaða bikarleik. Ég meina Valgerður [Arnalds] kemur hérna inn og á náttúrulega bara frábæran leik, bara risa hrós á þessa stelpu að koma hérna inn. Þetta er ekki auðvelt að koma inn eftir að hafa spilað lítið undanfarið. Hún var bara frábær. Þetta var bara liðsframmistaða.“

Hvaða skilaboðum var komið til liðsins í hálfleik?

„Við notuðum hálfleikinn aðeins til þess að stilla það sem okkur fannst vanta upp á í fyrri hálfleik og svo bara minna á að halda í grimmd og baráttu og stemningu. Það skilar svo miklu að vera með þessa hluti í lagi og það gekk eftir. Stelpurnar mættu með frábært hugarfar í dag.“

Fram fara lang leiðina með að tryggja annað sætið með sigrinum í kvöld. Aðspurð hvort það skipti máli að enda í efstu tveimur sætunum og losna við fyrstu umferð úrslitakeppninnar þegar þar að kemur, þá svaraði Rakel Dögg því á þennan veg.

„Við horfum bara alltaf á það að reyna að taka hvern leik og við förum í alla leiki til að vinna og sjá hvað það skilar okkur. Auðvitað erum við meðvituð um það að þessi leikur var svolítið upp á hvort við séum með annað sætið eða ekki, enn þá samt fjórir hörku leikir eftir og við tökum einn leik í einu og allt það. Það skiptir auðvitað máli því því hærra sem við komumst upp töfluna því betra, það er það sem við stefnum alltaf að.“

Díana Guðjónsdóttir er þjálfari HaukaVísir/Diego

„Við endum í þessu þriðja sæti og þannig er bara lífið“

„Bara allt, við vorum bara ekki mættar á svæðið í dag,“ sagði Díana Guðjónsdóttir, þjálfari Hauka, eftir þriggja marka tap gegn Fram í Olís-deild kvenna í kvöld.

„Við spilum enga vörn hérna í fyrri hálfleik, sem betur fer kom hún aðeins í seinni hálfleik. Þær voru bara betri á öllum sviðum í dag,“ sagði Díana.

Aðeins eitt mark skyldi liðin að í hálfleik´, Fram með forystuna. Haukar hófu síðari hálfleikinn afleitlega og skoruðu aðeins eitt mark á fyrstu tíu mínútunum á meðan Fram skoraði sex mörk. Díana var með einfaldar skýringar á því af hverju liðinu gekk svona illa á þeim kafla.

„Það var bara farið út úr skipulagi og ekki spilað eins og var lagt upp með í hálfleik.“

Þessi lið hafa mæst fjórum sinnum á tímabilinu, þrisvar í deild og svo í bikarúrslitum sem fram fóru fyrir aðeins 11 dögum. Haukar hafa tapað öllum leikjunum í deildinni en eru þó ríkjandi bikarmeistarar. Díana viðurkennir að með tapinu í kvöld sé það ljóst að liðið mun enda á eftir Val og Fram í deildinni þrátt fyrir að aðeins tveimur stigum munar á Haukum og Fram og fjórar umferðir eftir af tímabilinu.

„Við vorum að vinna þær með fimm mörkum fyrir nokkrum dögum síðan. Þannig að við þurfum bara að skoða þetta vel og förum yfir þetta. Við endum í þessu þriðja sæti og þannig er bara lífið.“

Efstu tvö lið deildarinnar sitja hjá í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og því ljóst á orðum Díönu að Haukar munu fara lengri leiðina ef liðið ætlar að koma sér í úrslit um Íslandsmeistaratitilinn. Díana var því spurð hvort hægt væri að líta á það með jákvæðum augum að fá fleiri keppnisleiki.

„Auðvitað hefðum við viljað aðeins pásu. Við erum með markmanninn [Söru Sif Helgadóttur] í meiðslum, hefðum kannski viljað missa hana. hún meiðist þarna í landsliðspásunni og það skiptir máli. Við verðum bara að skoða hvenær hún kemur inn og hvort hún kemur inn. Við tökum bara þessu, alltaf gaman að keppa,“ sagði Díana að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira