Það er í mörg horn að líta hjá starfsfólki Lögreglunnar á Suðurlandi enda mörg málin, sem þarf að sinna. Eitt af þeim er vandræðaástand, sem skapast oft vegna lausagöngu búfjár en samkvæmt tölum, sem Grétar Már, varðstjóri á Höfn í Hornafirði hefur tekið saman þá var ekið 1550 sinnum á búfé á árunum 2014 til 2024. Mest er ekið á búfé á vegunum í Austur Skaftafellssýslu.
„Síðan 2014 þá eru þetta orðnir 1550 gripir sem hafi verið tilkynntir eða komið inn á okkar borð. Þetta er mikill fjöldi eða eins og þrjú stór fjárbú,” segir Grétar Már og bætir við.
„Það sem ég hef verið að taka saman eru aðallega sauðfé en það er svo mikið við vegina, sérstaklega þarna í austur sýslunni og það er líka verið að keyra á hross og hreindýr en langmest sauðfé og það er það sem við höfum svolítið áhyggjur af.”
Grétar Már segir að í langflestum tilfellum þegar ekið er á búfé drepist það strax. En erum við að tala um ógætilegan akstur ökumanna eða hvað?
„Nei, ég myndi ekki segja það. Ég held bara og maður hefur séð það að skepnurnar stökkva bara upp á veginn. Við erum náttúrulega með mikið af ferðamönnum, sem eru ekki vanir svona í umferðinni.”

En hvaða ráðleggingar á Grétar Már vegna lausagöngu búfjár við vegi?
„Bara að girða í raun og veru.”
Og þetta í blálokin frá varðstjóranum.
„Passið ykkur bara á kindunum í vor og akið varlega,” segir Grétar Már.
