Erlent

Gerir lítið úr til­kalli Dana til Græn­lands

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Vel fór á með Bandaríkjaforseta og framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins.
Vel fór á með Bandaríkjaforseta og framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins. AP

Donald Trump Bandaríkjaforseti segist halda að Bandaríkin muni innlima Grænland. Fráfarandi formaður landstjórnar Grænlands, Múte B. Egede, hefur ítrekað undirstrikað það í viðtölum að Grænlendingar hafi engan áhuga á því að ganga inn í Bandaríkin.

Donald Trump situr á fundi með Mark Rutte framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins í Hvíta húsinu þar sem málefni Grænlands bar á góma. Blaðamaður bað hann um að gera betur grein fyrir áætlunum sínum á Grænlandi en áköll Trumps um innlimun hafa orðið síháværari á samfélagsmiðlum, opinberum yfirlýsingum og þegar hann ávarpaði bandarískan þingheim.

„Ég held að það verði af því. Ég velti því ekki mjög mikið fyrir mér áður en nú sit ég með manni sem gæti gegnt lykilhlutverki,“ segir Trump og snýr sér að Mark Rutte.

„Þú veist, Mark, að við þurfum á þessu að halda fyrir alþjóðaöryggi,“ sagði hann svo og kvaðst hafa áhyggjur af ásælni óvinaþjóða sinna á heimskautasvæðinu.

Hann gerði einnig lítið úr tilkalli Danmerkur til Grænlands, sagði það mjög langt frá Danmörku þrátt fyrri að vera hluti þess.

„Bát rak þar á land fyrir einhverjum 200 árum síðan. Þeir segjast eiga rétt á því. Ég veit ekki hvort það sé satt. Ég held að það sé það ekki raunar,“ segir Trump þá.

Hann segir Bandaríkjaher þegar hafa talsverða viðveru þar og ýjar að því að hún kunni að eflast.

„Kannski eigið þið eftir að sjá fleiri og fleiri hermenn fara þangað,“ segir Trump.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×