Með þeim einstaka árangri sínum að komast áfram úr deildarkeppni Sambandsdeildarinnar í vetur náðu Víkingar að bæta við nægilega mörgum stigum fyrir Ísland til að koma Bestu deildinni upp í 33. sæti styrkleikalista UEFA.
Það er afar dýrmætt, eins og Sævar Pétursson framkvæmdastjóri KA bendir á í færslu á Twitter, því aðeins efstu 33 löndin fá að senda fulltrúa í undankeppni Evrópudeildarinnar á næsta ári.

Silfurliðið úr Bestu fær að sitja hjá
Liðin úr næstu deildum á eftir þeirri íslensku hafa nú öll fallið úr keppni. Ísland er rétt fyrir ofan Bosníu en bosníska liðið Borac féll í gær úr leik í Sambandsdeildinni eftir framlengdan leik gegn Rapid Vín í Austurríki. Þar með getur Bosnía ekki lengur náð Íslandi.
Það er því eftir enn meira að sækjast en áður fyrir íslensku liðin á komandi keppnistímabili:
Hverju skilar árangur 2025?
1) Íslandsmeistararnir fara í 1. umferð undankeppni Meistaradeildar sumarið 2026.
2) Bikarmeistararnir fara í 1. umferð undankeppni Evrópudeildar sumarið 2026.
3) Liðið í 2. sæti Bestu deildar fer í 2. umferð undankeppni Sambandsdeildar sumarið 2026.
4) Liðið í 3. sæti Bestu deildar fer í 1. umferð undankeppni Sambandsdeildar sumarið 2026.
*Ef bikarmeistarar enda í einu af efstu þremur sætum Bestu deildar fer liðið í 4. sæti í 1. umferð undankeppni Sambandsdeildar sumarið 2026.
Breytingarnar hafa áhrif á Evrópukeppnirnar sem hefjast 2026. Bikarmeistararnir í fyrra, KA-menn, munu sem sagt leika í undankeppni Sambandsdeildarinnar í ár en næstu bikarmeistarar græða á árangrinum sem nú hefur náðst.
Það að byrja í undankeppni Evrópudeildar þýðir að næstu bikarmeistarar fá að minnsta kosti tvö Evrópueinvígi, því ef lið falla út í undankeppni Evrópudeildar fara þau í undankeppni Sambandsdeildar.
Eins og fram kemur hér að ofan mun silfurliðið í Bestu deildinni í ár einnig græða á árangrinum og sleppa við fyrstu umferð undankeppni Sambandsdeildarinnar á næsta ári.
Frábært, algjörlega frábært fyrir íslenskan fótbolta. pic.twitter.com/qMnipMEe1V
— saevar petursson (@saevarp) March 13, 2025
Í sumar leika Íslandsmeistarar Breiðabliks í undankeppni Meistaradeildarinnar (og geta svo færst í undankeppni Evrópudeildar og/eða Sambandsdeildar ef þeir falla úr keppni) en KA, Víkingur og Valur leika í 1. umferð undankeppni Sambandsdeildarinnar. Víkingur og Valur höfnuðu í 2. og 3. sæti Bestu deildarinnar.