Innlent

Hundrað manns ræddu um­hverfis­málin

Bjarki Sigurðsson skrifar
Hópurinn sem mætti á fundinn í dag.
Hópurinn sem mætti á fundinn í dag. Jean-Rémi Chareyre

Í dag fór fram opinn stefnumótunarfundur í umhverfis- og loftslagsmálum í HR. Skipuleggjandi segir málaflokkinn hafa gleymst upp á síðkastið, en Ísland geti verið leiðandi þar. 

Fundurinn ber yfirskriftina Hvað varð um umhverfismálin? Hópur umhverfissinna stendur að skipulagi hans og yfir hundrað manns mættu að taka þátt. Valgerður Árnadóttir, ein af skipuleggjendum, segir umhverfismálin hafa mætt afgangi upp á síðkastið.

„Okkur fannst í síðustu kosningum allt of lítil áhersla lögð á loftslags- og umhverfismál. Okkur fannst vanta aðhaldið við stjórnvöld,“ segir Valgerður.

Skipuleggjendurnir, Kamma Thordarson, Valgerður Árnadóttir og Þórhildur Fjóla Kristjánsdóttir.Valgerður Árnadóttir

Hugmyndir fundargesta verða teknar saman og sendar á stjórnvöld.

„Í lok fundar vonum við að við verðum komin með einhverskonar hugmynd af hvað umhverfissinnar á Íslandi telja mikilvægt að stjórnvöld þurfi að gera í aðgerðum varðandi loftslags- og umhverfismál á næsta árinu,“ segir Valgerður. 

Umhverfismálin hafi ekki eingöngu gleymst á Íslandi, heldur um allan heim.

„Við á Íslandi getum komið fram með góðu fordæmi. Við erum lítil en ef við viljum getum við bæði orðin sjálfbær og kolefnishlutlaus þjóð innan örfárra ára. Ef við setjum fram almennilegar aðgerðir. Við viljum koma fram með góðu fordæmi vegna þess að við höfum öll tækifæri til þess,“ segir Valgerður. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×