Innlent

„Þetta er auð­vitað al­var­legt mál“

Eiður Þór Árnason og Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifa
Fréttamenn og myndatökumenn mæltu sér mót við forsætisráðherra í kvöld.
Fréttamenn og myndatökumenn mæltu sér mót við forsætisráðherra í kvöld. Vísir/Bjarni

„Þetta er auðvitað alvarlegt mál en ég verð að segja að ég auðvitað veit ekkert meira en hinn almenni maður. Það er að segja ég var ekki viðstödd þegar þessi samskipti áttu sér stað fyrir rúmlega þrjátíu árum síðan.“

Þetta segir Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra um mál Ásthildar Lóu Þórsdóttur, fráfarandi mennta- og barnamálaráðherra sem boðaði afsögn sína í kvöld eftir að greint var frá 36 ára gömlu sambandi hennar við pilt sem hún kynntist þegar hún var leiðbeinandi í trúarsöfnuði. Þau eignuðust saman son þegar hún var 22 ára og hann sextán.

„Þetta er mjög persónulegt mál, varðar líka fjölskyldu ráðherra og að virðingu við hlutaðeigandi þá ætla ég ekki að tjá mig um efnistökin. En ég held að það segi sína sögu um alvarleika málsins og það að ráðherra telji að þetta muni mögulega trufla hennar störf og störf ríkisstjórnarinnar að hún hafi tekið þá ákvörðun, sem er stór, að segja af sér,“ bætti Kristrún við í samtali við fréttamenn í kvöld. Hún hafi fyrst fengið staðfestingu á upplýsingum um samband barnamálaráðherra í dag.

Kristrún segir það Flokks fólksins að ákveða hver innan þeirra raða taki við ráðherrastólnum. Kristrún hafi fyrst fengið staðfestingu á upplýsingum um samband Ásthildar í dag og hafi þá strax fundað með ráðherranum. Greint hefur verið frá því að kona hafi sett sig í samband við forsætisráðuneytið til að vekja athygli á málinu. Telur Ásthildur að um sé að ræða fyrrverandi tengdamóður barnsföður síns en hún kannast ekki við nafnið þegar konan hafði fyrst samband við forsætisráðuneytið.

Tímalínan verið stutt og ekki fallist á einkafund með forsætisráðherra

Að sögn Kristrúnar barst fyrsta erindið ráðuneytinu þann 9. mars og fylgdi ítrekun tveimur dögum síðar. 13. mars hafi svo borist annað skeyti og verið beðið um fund með forsætisráðherra, tilgreint að málið varðaði mennta- og barnamálaráðherra og sagt að það sé í góðu lagi að hún sitji einnig þann fund. Ekkert hafi komið fram þar um erindi málsins.

Í kjölfarið hafi aðstoðarmaður forsætisráðherra haft samband við aðstoðarmann barnamálaráðherra og aðstoðarmaðurinn hafi upplýst að barnamálaráðherra kannaðist ekki við sendanda erindisins. Að sögn Kristrúnar urðu þá engin frekari samskipti milli hennar og mennta- og barnamálaraðherra eða aðstoðarmanna þeirra um erindið.

Seinna hafi borist ítrekun þar sem erindið hafi ekki komið fram þá hafi forsætisráðuneytið nú óskað eftir því. Þá hafi Kristrúnu borist upplýsingar um eðli málsins og í kjölfarið hafi verið tekin ákvörðun um að bjóða sendanda ekki upp á einkafund með forsætisráðherra. Hún segir að upplýsingar um það erindi hafi ekki borist barna- og menntamálaráðherra og Kristrún ekki rætt það við Ásthildi.

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segist hafa brugðist strax við þegar hún fékk staðfestingu á því að upplýsingarnar sem ráðuneytinu bárust fyrir um viku væru réttar. vísir/vilhelm

Það sé rangt að forsætisráðuneytið hafi rofið trúnað um málið líkt og fram hafi komið í umfjöllun RÚV. Kristrún hafi fyrst í dag rætt við Ásthildi um efnistök málsins þegar upplýsingarnar hafi fengist staðfestar.

„Með því að hafna beiðni um einkafund með forsætisráðherra er með engu verið að taka afstöðu til málsins. Ég tek líka fram að það er ekki fyrr en í dag að ég fæ upplýsingar um að það sem kemur fram í þessu bréfi sem barst fyrir um viku síðan hafi verið í meginatriðum rétt. Í kjölfarið fæ ég staðfestingu á því og funda í kjölfarið með mennta- og barnamálaráðherra og hún tekur í kjölfarið ákvörðun um að segja af sér,“ bætir Kristrún við.

Hún tekur fram að mörg erindi berist til forsætisráðuneytisins og þau endi ekki öll með einkafundi með ráðherra.

Ekki verið rætt að Ásthildur segi af sér þingmennsku

Ásthildur hyggst sitja áfram á Alþingi og segir Kristrún að það hafi ekki verið rætt innan ríkisstjórnarinnar að hún myndi segja sér þingmennsku. Þetta sé erfitt mál og það sé stór ákvörðun fyrir Ásthildi að láta af ráðherraembætti.

Kristrún segir það óvenjuleg viðbrögð hjá Ásthildi að hafa haft samband við konuna sem sendi erindi til forsætisráðuneytisins til að vekja athygli á máli ráðherrans og fara síðan heim til hennar, líkt og RÚV hefur greint frá. Hún hafi einungis fengið vitneskju um þetta í dag.

En er ekki ljóst einmitt í ljósi alvarleika málsins að  það hefði verið þá rétt að kanna þetta?

„Það er ýmislegt sem er hægt að gera hér innan forsætisráðuneytis og það er engu lokið fyrir það skotið að þessar upplýsingar hefðu komist með öðrum hætti og verið staðfestar með öðrum hætti hér innanhús. Það vill þannig til að tímalínan í þessu máli er skömm,“ segir Kristrún.

Fjöldi erinda og mikið magn upplýsinga berist ráðuneytinu og það taki tíma að bregðast við.

„Lykilatriðið er þetta, að niðurstaða dagsins í dag er að þegar það bárust upplýsingar hingað inn í hús til mín sem forsætisráðherra um að þær upplýsingar sem fram komu í þessu bréfi ættu við rök að styðjast og í kjölfarið fengum við staðfestingu á því þá var mennta- og barnamálaráðherra strax boðuð hingað á fund og niðurstaðan á þeim fundi er afsögn ráðherra. Þannig að það er brugðist mjög snöggt við þessum viðburði þegar endanleg staðfesting er fengin í því máli.“


Tengdar fréttir

Ást­hildur Lóa hefur sagt af sér: Ekki sama manneskja í dag og fyrir 36 árum

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, barnamálaráðherra og þingmaður Flokks fólksins hefur sagt af sér ráðherraembætti. Fyrr í kvöld var greint frá því að hún hefði átt í sambandi þegar hún var 22 ára með sextán ára pilti sem hún leiðbeindi í trúarsöfnuði. Þau eignuðust svo barn saman ári síðar. 

Barna­málaráðherra eignaðist barn með tánings­pilti þegar hún var 22 ára

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra átti í ástarsambandi við fimmtán ára pilt þegar hún var sjálf 22 ára og eignaðist með honum son einu ári síðar. Faðirinn sakar hana um tálmun en segist samt hafa verið rukkaður um meðlag. Barnið fæddist fyrir rúmlega þremur áratugum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×