Innlent

Vilja breyta lögum um öku­skír­teini

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir þingmaður Miðflokksins er frummælandi frumvarpsins.
Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir þingmaður Miðflokksins er frummælandi frumvarpsins. Vísir/Vilhelm

Nokkrir þingmenn Miðflokksins hafa lagt fram frumvarp um breytingu á umferðarlögum þar sem lagt er til að gildistími ökuskírteina þeirra sem eru 65 ára og eldri verði lengri.

Frummælandi frumvarpsins er Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir, og aðrir flutningsmenn eru Bergþór Ólason, Ingibjörg Davíðsdóttir og Karl Gauti Hjaltason.

Tíu ára gildistími til 80 ára aldurs

Núgildandi lög kveða á um að þeir sem hafi náð 60 ára aldri þurfi að endurnýja ökuskírteini sitt á tíu ára fresti, 65 ára og eldri á fimm ára fresti, 70 ára á fjögurra ára fresti, 71 árs á þriggja ára fresti, 72 á tveggja ára fresti og 80 ára og eldri á hverju ári.

Breytingarnar sem lagðar eru til eru þær að skírteinið gildi í tíu ár fyrir þá sem eru 60 ára, fimm ár fyrir 80 ára, og tvö ár fyrir þá sem eru 90 ára og eldri.

Hreysti fólks hafi aukist

Í greinargerð segir að frumvarpið sé lagt fram í ljósi þess að lífaldur Íslendinga hafi undanfarna áratugi lengst ásamt því að hreysti fólks hafi almennt aukist og því sé eðlilegt að lögin taki tillit til þess, svo eldri borgarar þurfi ekki að endurnýja ökuskírteini sín jafn ört og samkvæmt núgildandi lögum.

„Ökumenn 65 ára og eldri þurfa að endurnýja ökuskírteini sitt á eins til fimm ára fresti. Af því hlýst ómældur kostnaður fyrir einstaklingana og ríkið. Eldri ökumenn þurfa jafnframt að fara í læknisskoðun og afla vottorðs hjá heimilislækni á yfirfullum heilsugæslum með tilheyrandi flækjustigi.“

„Flutningsmenn telja að með þessu frumvarpi verði eldri borgurum sem hafa hæfni til að aka gert léttara fyrir, létt verði á heilsugæslum landsins, fjármunir einstaklinga og ríkis sparist ásamt því að umstang hins opinbera minnki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×