Um­fjöllun: Ís­land - Kósovó 1-3 | Aldrei verið á verri stað

Sindri Sverrisson skrifar
Orri Óskarsson með boltann í leiknum við Kósovó í kvöld sem fram fór í Murcia á Spáni þó að um heimaleik Íslands væri að ræða.
Orri Óskarsson með boltann í leiknum við Kósovó í kvöld sem fram fór í Murcia á Spáni þó að um heimaleik Íslands væri að ræða. EPA-EFE/Marcial Guillen

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta er fallið niður í C-deild Þjóðadeildar UEFA eftir 3-1 tap gegn Kósovó í heimaleik Íslands í Murcia á Spáni í kvöld. Ísland tapaði því einvíginu 5-2 og það verða Kósovóar sem spila í B-deild keppninnar í fyrsta sinn, haustið 2026.

Ísland hefur aldrei, frá stofnun Þjóðadeildarinnar árið 2018, spilað í C-deild en miðað við frammistöðuna í kvöld, í bland við þá staðreynd að ekki sé til leikhæfur völlur á Íslandi, þá er C-deildin því miður nákvæmlega sá staður sem liðið á heima á.

Fyrirliðinn Orri Óskarsson gaf Íslandi reyndar draumabyrjun í kvöld, og jafnaði einvígið strax á 2. mínútu leiksins, en Vedat Muriqi skoraði þrennu fyrir Kósovóa og sá til þess að þeir færu með sigur af hólmi.

Aron Einar Gunnarsson, sem kom inn á í upphafi seinni hálfleiks, fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt á 69. mínútu og voru Íslendingar því manni færri í rúmar tuttugu mínútur.

Öll mörkin úr leiknum má finna í greininni hér að neðan.

Arnar Gunnlaugsson ákvað að kollvarpa mörgu hjá íslenska liðinu í fyrstu leikjum sínum sem landsliðsþjálfari en það gekk engan veginn upp, að minnsta kosti í þessari rimmu. Sigur Kósovó var fyllilega verðskuldaður og niðurtúr Íslendinga frá góðærinu miklu í kringum EM 2016 og HM 2018 er greinilega engan veginn búinn, og jafnvel bara að versna.

Ísland verður því á næstu leiktíð í C-flokki, bara fyrir ofan nokkrar allra slökustu þjóðir álfunnar, og það virðist alveg ævintýralega mikið þurfa að breytast til að Ísland eigi eitthvað erindi í baráttu við Úkraínu og Króatíu eða Frakkland um sæti á HM í undankeppninni næsta haust.

Hafi Arnar verið djarfur í vali á fyrsta byrjunarliði sínu síðasta fimmtudag þá gekk hann skrefi lengra í kvöld og stillti aðeins upp tveimur varnarmönnum en hafði Stefán Teit sem miðvörð og Ísak Bergmann sem vinstri bakvörð. Tvo gæðaleikmenn í stöðum sem þeir þekkja afar illa. Þetta bar engan árangur.

Arnar sagðist, þegar hann tók við landsliðinu, ekki telja að skortur á varnarmönnum væri eins mikið vandamál og menn vildu vera láta en hann hlýtur að vera að minnsta kosti í vafa um það núna. Ekki það að heilt yfir var hreinlega sárafátt til að gleðjast yfir í Murcia í kvöld.

Nema þá byrjun Íslands. Mikill kraftur í mönnum alveg í byrjun og Orri skoraði eftir hornspyrnu Alberts Guðmundssonar.

Þá tóku Kósovóar hins vegar völdin. Ísland var svo sem meira með boltann en skapaði sér ekkert. Á meðan voru Kósovóar ítrekað að koma sér í skotfæri við teig íslenska liðsins, oft eftir slæm mistök og einhvers konar meðvitundarleysi eða misskilning hjá vörn Íslands.

Kósovó hefði alveg getað verið búin að jafna metin þegar Muriqi skoraði eftir sókn fram vinstri kantinn, þar sem „hitt gestaliðið“ spilaði sig allt of auðveldlega framhjá Stefáni Teiti og Bjarka Steini sem hafði þurft að koma snemma inn fyrir meiddan Valgeir Lunddal.

Íslendingar virtust svo komnir inn til búningsklefa þegar Muriqi kom Kósovó yfir rétt fyrir hálfleiksflautið. Sverrir Ingi hvergi nálægt honum og Stefán Teitur bakkaði bara og bakkaði frá Milot Rashica sem átti stoðsendinguna.

Arnar skellti gamla fyrirliðanum Aroni Einari inn á í byrjun seinni hálfleiks, í stað Arnórs Ingva svo Stefán Teitur færðist fram á miðju, og Logi kom í stað Ísaks sem vinstri bakvörður. Byrjunarlið sem meikaði meira sens, ef svo má segja, út frá reynslu manna af því að spila þessar stöður. En Arnar leit greinilega á að í kvöld væri tilefni til að gera miklar tilraunir sem svo gengu engan veginn upp.

Aron var strax kominn á hættusvæði með gult spjald og eftir kannski skásta kafla Íslands í leiknum fékk hann svo sitt annað gula spjald og þar með rautt á 69. mínútu, fyrir brot á manni leiksins, Muriqi.

Það var aldrei neitt sem benti til þess að Ísland næði að vinna einvígið eftir þetta og hvað þá þegar Muriqi skoraði af stuttu færi eftir hornspyrnu tíu mínútum síðar.

Búið spil, betra liðið vann og næst eru það vináttulandsleikir við Skotland og Norður-Írland ytra í júní. Þar getur Arnar haldið áfram að gera tilraunir sem vonandi skila sér í einhverju allt, allt öðru en sást í kvöld, áður en fúlasta alvara tekur við í undankeppni HM í haust.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira