Fótbolti

Lífið í Brúnei ein­mana­legt

Stefán Árni Pálsson skrifar
Damir er líklega á leiðinni aftur heim í Breiðablik í sumar.
Damir er líklega á leiðinni aftur heim í Breiðablik í sumar. vísir/ívar

Miðvörðurinn Damir Muminovic segir að lífið í Brúnei geti verið einmanalegt og lítið annað hægt að gera en að spila golf. Hann æfir nú með Blikum í fríi á Íslandi.

Damir hefur verið á mála hja liðinu DPMM frá Brúnei síðustu mánuði en liðið leikur í úrvalsdeildinni í Singapúr.

„Lífið í Brúnei hefur verið fínt. Ekkert meira eða minna en það. Þetta er allt öðruvísi heimur en ég er vanur hérna heima. Boltinn er, ef ég á að vera hreinskilinn, ekkert frábær. Það eru tvö til þrjú lið í deildinni sem eru mikið betri en hin. Liðið okkar er svolítið langt á eftir þeim,“ segir Damir sem æfði með Breiðabliki í hádeginu í gær. Hann var Íslandsmeistari með liðinu á síðasta tímabili og gerir ráð fyrir því að koma heim í sumarglugganum þegar samningur hans við DPMM rennur út.

„Það er gott að koma heim og kíkja á smá æfingu með þeim. Framhaldið þarna er ekkert alveg ákveðið en eins og staðan er núna er ég á leiðinni heim eins og planið var alltaf.“

Hann segir að lítið sé um að vera í Brúnei og margt einfaldlega bannað.

„Samfélagið þarna úti er allt öðruvísi. Til dæmis, ekki það að ég sé að leitast mikið eftir því, þá er ekkert vín þarna, engin skemmtun og þetta er bara kaffihús og slökun. Þetta getur verið einmanalegt. Þú ferð bara í morgunmat með liðinu, kaffi og bíður eftir æfingu klukkan fimm. Milli þess hefur maður í raun ekkert að gera, en ég spila mikið golf.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×