Innlent

Tveir hand­teknir vegna stolins riffils með hljóð­deyfi

Árni Sæberg skrifar
Hljóðdeyfi hafði verið komið fyrir á rifflinum. Ekki liggur fyrir hvers konar riffil var um að ræða en þessi mynd er úr safni.
Hljóðdeyfi hafði verið komið fyrir á rifflinum. Ekki liggur fyrir hvers konar riffil var um að ræða en þessi mynd er úr safni. Getty/dmitri Toms

Karlmaður var nýverið handtekinn eftir að riffli var stolið úr verslun á höfuðborgarsvæðinu. Þegar lögregla fann riffilinn hafði hljóðdeyfir verið settur á hann af öðrum manni. Sá var sömuleiðis handtekinn og sviptur skotvopnaleyfi samstundis.

Í tilkynningu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á Facebook segir að eftir að rifflinum var stolið hafi böndin fljótlefa beinst að ákveðnum manni. Sá hafi verið handtekinn skömmu síðar, hann hafi játað sök og vísað á vopnið.

„Á það var þá hins vegar kominn hljóðdeyfir, sem annar maður hafði keypt í millitíðinni og látið setja á vopnið. Sá maður var líka handtekinn og í framhaldinu var farið í húsleit í híbýlum hans.“

Þar hafi fundist fleiri skotvopn og skotfæri, sem hafi verið haldslögð. Vörslu þeirra hafi verið ábótavant og ekki í samræmi við ákvæði vopnalaga. Viðkomandi hafi verið með skotvopnaleyfi en það hafi verið afturkallað samstundis. Hinum stolna riffli hafi verið komið aftur í réttar hendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×