Brand var í gær ákærður fyrir tvær nauðganir og nokkur kynferðisbrot til viðbótar. Lögregla hafði rannsakað málin frá því heimildamyndin Dispatches var sýnd á Channel 4 árið 2023 þar sem fram komu ásakanir um kynferðisbrot og nauðgun á hendur Brand.
Umræddar árásir eiga að hafa átt sér stað á árunum 1999 og 2005 og verið gegn fjórum mismunandi konum. Reiknað er með að aðalmeðferð hefist í máli hins 49 ára Russell Brand 2. maí næstkomandi.
Brand brást við fréttunum í myndbandi á bæði Instagram og X (áður Twitter) í eftirmiðdaginn í gær. Hann byrjaði á að þakka fólki fyrir stuðninginn, lýsti skoðunum sínum á ástandi breskra dómstóla og brást svo við kærunum.
Svar frá sólarströnd
„Við erum lánsöm, held ég, að þetta sé að gerast á tímum þar sem við vitum að lögin eru orðin vopn sem eru notuð gegn fólki, stofnunum og stundum jafnvel heilum þjóðum,“ sagði Brand í myndbandinu.
Hann spurði síðan Breta hvernig þeim liði með dómskerfi sitt þar sem ekki væri gengið á eftir stórum málum og nefndi þar Southport-morðin og ríkisstjórn Keir Starmer. Þess ber að geta að morðinginn, hinn sautján ára Alex Rudakubana, var dæmdur í lágmarks 52 ára fangelsi og mun sennilega aldrei ganga frjáls.
My response. pic.twitter.com/wJMGxlwBh0
— Russell Brand (@rustyrockets) April 4, 2025
„Ég var fífl áður en ég lifði í ljósi drottins. Ég var eiturlyfjafíkill, kynlífsfíkill og hálfviti. En það sem ég var aldrei, var nauðgari,“ sagði hann svo í myndbandinu. „Ég hef aldrei tekið þátt í neinum athöfnum án samþykkis. Ég bið fyrir því að sjáið það með því að horfa í augun á mér,“ sagði hann einnig.
„Ég mun nú fá tækifæri til að svara þessum ákærum í dómssal og ég er ótrúlega þakklátur fyrir það,“ sagði hann að lokum.