Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. Þar segir að borgarráð hafi samþykkt á fundi sínum í desember á síðasta ári tillögur starfshóps um endurskoðun á skipulagi Menningarnætur og Reykjavíkurmaraþons um breytingar á hlaupaleiðum Reykjavíkurmaraþons og dagskrá Menningarnætur 2025.
„Meginmarkmið með breytingu á endamarki maraþonsins var að tryggja öryggi gangandi vegfarenda á svæðinu eftir að hlaupi lýkur með aukinni gæslu og betri lokunum. ÍBR segir breytinguna viðamikla, vinna sé nú þegar hafin, en ekki sé mögulegt að ljúka henni fyrr en á næsta ári.
Borgarráð hefur samþykkt beiðni ÍBR og verður endamarkið því í Lækjargötu í ár líkt og fyrri ár en í Geirsgötu árið 2026.
Aðrar breytingar sem starfshópurinn lagði til, svo sem flutningur á skemmtiskokki úr Þingholtunum í Gamla Vesturbæinn og að kvölddagskrá ljúki klukkan 22:00 í stað 23:00, munu engu að síður taka gildi nú í ár,“ segir í tilkynningunni.