Enski boltinn

„Því miður verðið þið að þola mig að­eins lengur“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ange Postecoglou fagnar sigri Tottenham í gærkvöldi og þar með sæti í undanúrslitaleik Evrópudeildarinnar.
Ange Postecoglou fagnar sigri Tottenham í gærkvöldi og þar með sæti í undanúrslitaleik Evrópudeildarinnar. Getty/ Alex Grimm/

Ange Postecoglou stýrði Tottenham áfram í undanúrslit Evrópudeildarinnar í gærkvöldi og svo gæti farið að við fáum enskan úrslitaleik um laust sæti í Meistaradeildinni.

Postecoglou beindi orðum síðum til sinna gagnrýnenda eftir 1-0 útisigur Tottenham á Eintracht Frankfurt.

Þetta hefur verið mjög erfitt tímabil fyrir Tottenham í ensku úrvalsdeildinni en eins og hjá Manchester United þá getur liðið bjargað miklu með því að vinna Evrópudeildina.

„Því miður verðið þið að þola mig aðeins lengur,“ sagði Ange Postecoglou sposkur á blaðamannafundi eftir leikinn.

„Ég er ánægður með marga hluti og er virkilega stoltur af strákunum. Við vorum að spila á útivelli í átta liða úrslitum á móti mjög góðu liði,“ sagði Postecoglou.

„Við þurftum að skora í kvöld og sýna okkar gæði. Strákarnir voru frábærir í svona mikilvægum leik. Við unnum okkur réttinn að fá að spila í undanúrslitunum,“ sagði Postecoglou.

„Ég er samt sami knattspyrnustjórinn í dag og ég var í gær. Svona ef einhver heldur að ég sé allt í einu orðinn betri þjálfari. Mér er sama hvað öðrum finnst. Það hefur ekki áhrif á mína vinnu. Eina sem skiptir mig máli er að leikmennirnir mínir og starfsliðið hafi trú á mér,“ sagði Postecoglou.

„Leikmennirnir og starfsmennirnir hafa verið stórkostlegir. Ég er andlit liðsins en þeir taka ábyrgð í gegnum mínar ákvarðanir og ég hef ekki orðið var við það að þeir efist um mínar ákvarðanir,“ sagði Postecoglou.

Tottenham mætir norska félaginu Bodö/Glimt í undanúrslitum Evrópudeildarinnar en í hinum leiknum mætast Manchester United og Athletic Bilbao.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×