Fleiri fréttir

Vilja afnema tvöfalt kerfi slitastjórna og -nefnda

Sex þingmenn úr öllum flokkum hafa lagt fram frumvarp um afnán skilanefnda fyrir viðskiptabankana sem fóru í þrot við hrunið. Verkefni skilanefndanna færist til slitastjórna 1. september verði frumvarpið samþykkt.

Ætlar að safna milljarði dala

Barack Obama og Joe Biden tilkynntu í gær að þeir ætluðu að gefa kost á sér til annars kjörtímabils sem forseti og varaforseti Bandaríkjanna.

Segir þrjá kosti í stöðunni eftir skipunina

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra skipaði í gær Sigríði J. Friðjónsdóttur, saksóknara Alþingis, í embætti ríkissaksóknara. Sigríður hefur undanfarið verið í leyfi frá starfi sínu sem vararíkissaksóknari.

Þokast áleiðis í kjaraviðræðum

„Við erum að tala okkur nær hver öðrum. Það er enginn búinn að hafna neinu eða samþykkja neitt,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, um ganginn í kjaraviðræðum SA og ASÍ.

Fjórðungur lifir

Hlutfall þeirra sem útskrifast af Landspítala eftir hjartaendurlífgun er með því hæsta sem gerist í heiminum. Frá þessu var greint á Vísindaþingi skurð-, svæfingar- og gjörgæslulækna um síðustu helgi.

Reynt að ná flakinu upp

Allt að mánuður getur liðið þangað til hægt verður að hefja vinnu við að ná flaki franskrar Airbus-farþegaþotu af botni Atlantshafsins, þar sem það hefur legið á 3.900 metra dýpi síðan vélin hrapaði í júní 2009.

Vopnað rán í Breiðholti: Hann var með hnífinn á lofti

„Hann hefur fengið einhverja hundrað kalla upp úr þessu," segir Gunnar Gunnarsson, eigandi Söluturnins Hraunberg í Breiðholti. Grímuklæddur maður ógnaði starfsfólki með hnífi og heimtaði peninga úr afgreiðslukassa um klukkan sjö í kvöld.

Réttað yfir hryðjuverkamönnum á Kúbu

Réttarhöldin yfir Kahlid Sheikh Mohammed, sem hefur viðurkennt að hafa skipulagt hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin í september árið 2001, fara fram í herdómstóli í Guantanamó á Kúbu.

Austurstræti verður göngugata - framkvæmdir hafnar

Framkvæmdir eru hafnar við að breyta Austurstræti, milli Lækjargötu og Pósthússtrætis, í göngugötu. Ásýnd strætisins breytist nokkuð því grænu stálpollarnir sem liggja eftir endilöngu strætinu við núverandi bílastæði verða fjarlægðir og skapast þar svigrúm fyrir mannlífið í götunni. Trén í götunni verða þar áfram. Við Lækjargötu verður lokað fyrir umferð inn í Austurstræti og járnhliðið sem þar stendur verður fjarlægt. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. Ný hellulögn ásamt snjóbræðslu kemur fyrir framan endurgerðu húsin Austurstræti 22 og Lækjargötu 2. Þá verður hellulögnin á gatnamótum Austurstrætis og Lækjargötu endurnýjuð, en þar hefur bílaumferð markað djúpar lægðir í götuna. Meðan unnið verður við gatnamótin verður þeim haldið opnum fyrir bílaumferð með einni akrein í hvora átt. Endurnýjun gatnamótanna verður lokið fyrir páska, en verklok verksins í heild er 16. maí. Vegfarendur eru beðnir velvirðingar á truflun vegna framkvæmdanna, en eru jafnframt beðnir um að sýna aðgát og virða afmörkun vinnusvæða.

Borðtennisprestur á pall með syni sínum

Feðgarnir séra Hjörtur Magni Jóhannsson 52 ára og Magnús Jóhann Hjartarson 12 ára, státa báðir af Íslandsmeistaratitli í einliðaleik í borðtennis. Magnús Jóhann, nemandi í Fossvogsskóla, varð íslandsmeistari í flokki 12 til 13 ára um síðustu helgi, auk þess sem hann varð í þriðja sæti í tvíliðaleik. Faðir hans, Fríkirkjupresturinn Hjörtur Magni, vann síðan titilinn Íslandsmeistari í flokki karla 50 til 59 ára á laugardaginn, og landaði einnig þriðja sætinu í tvíliðaleik.

Sýra fannst í þurrfóðri

Ákveðið hefur verið að innkalla Iceland Pet þurrfóður vegna ábendinga frá Matvælastofnun. Í tveimur sýnum af fóðrinu fannst cyanuric sýra í litlu magni.

Bakslag komið í kjaraviðræður

Minnstu munaði að slitnaði upp úr viðræðum Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambandsins í dag vegna kröfu ASÍ um 200 þúsund króna lágmarkslaun. SA kom til móts við þessa kröfu síðdegis með því skilyrði að tiltekin hagvaxtaspá gangi eftir og að ríkisstjórnin komi að samningunum með þeim hætti sem aðilar vinnumarkaðarins telja að geti stuðlað að fjölgun starfa.

Fíkniefnasalar handteknir

Tveir karlar á þrítugsaldri voru handteknir í austurborginni í gær eftir að lögreglan stöðvaði þar ökutæki. Hjá þeim fundust fíkniefni en mennirnir voru einnig með nokkuð af peningum í fórum sínum sem grunur leikur á að séu tilkomnir vegna fíkniefnasölu.

Íbúar gætu verið bótaskyldir fjúki ruslatunnurnar

Íbúar Reykjavíkur sem kjósa að færa ruslatunnur sínar út að götu á sorphirðudegi eiga á hættu að verða bótaskyldir ef tunnurnar fjúka til í roki. Tryggingafélögin segja flækjustigið mikið og óttast að fjöldi slíkra mála berist.

Ríkisstjórnin fundar á Ísafirði

Ríkisstjórnarfundur verður haldinn á Ísafirði á morgun og verður það í fyrsta skipti sem ríkistjórn Íslands fundar á Vestfjörðum.

Þrettán líkamsárásir um helgina

Þrettán líkamsárásir voru tilkynntar til lögreglunnar um helgina. Átta þeirra áttu sér stað í miðborginni aðfaranætur laugardags og sunnudags. Líkamsárásirnar voru flestar minniháttar og mestmegnis voru þetta pústrar.

Fundu gras og amfetamín

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fann amfetamín og marijúana við húsleit í íbúð í Breiðholti á föstudag. Einnig var lagt hald á ýmsa muni sem grunur leikur á að séu þýfi. Tveir karlar og ein kona voru handtekin í þágu rannsóknarinnar en fólkið er allt á þrítugsaldri.

Sigríður skipuð ríkissaksóknari

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, hefur skipað Sigríði J. Friðjónsdóttur vararíkissaksóknara í embætti ríkissaksóknara. Hún tekur við embættinu af Valtý Sigurðssyni.

Fékk greiddar fjórar milljónir fyrir mistök

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag mann til að endurgreiða 4 milljónir króna sem voru greiddar fyrir mistök inn á reikning hans í Kaupþingi um miðjan desember 2008.

Engin lausn að velja óumdeildan mann

Stefán Einar Stefánsson, guðfræðingur, mun taka við starfi formanns VR, eins öflugasta verkalýðsfélags landsins, seinna í mánuðinum. Hann varð hlutskarpastur sjö frambjóðanda í formannskjöri félagsins en úrslit voru kynnt í síðustu viku.

Tíu fórust í flugslysi

Að minnsta kosti tíu fórust þegar flugvél hrapaði við flugvöllinn í Kinshasa í Kongó í dag. Vélin var á vegum Sameinuðu þjóðanna og brotnaði hún í tvennt þegar hún brotlenti á flugbrautinni að því er vitni segja í samtali við BBC. Vélin mun hafa verið að koma frá norðausturhluta landsins en óljóst er enn hvað olli slysinu. Að minnsta kosti 16 slösuðust að því er fram kemur hjá Reuters.

Fyrrverandi ráðherrum hótað

Rannsóknarlögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu rannsaka nú hótunarbréf sem barst á ritstjórnarskrifstofur DV. Í bréfinu er fyrrverandi stjórnmálamönnum, sem flestir eiga það sameiginlegt að hafa tjáð sig á jákvæðum nótum um Icesave samningana, hótað með þeim hætti að þeim er ráðlagt að fá sér lífverði.

Allir gegnumlýstir en engir vindsokkar

Helstu áhættuþættir í flugi á Íslandi eru tengdar hinu opinbera, að mati fráfarandi formanns Öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna. Í fréttabréfi FÍA segir Kári Kárason flugstjóri frá því sem hann kallar miskunnarlausan niðurskurð í flugmálum.

Harmleikur hjá fjölskyldu Bubba

Bubbi Morthens tónlistarmaður greinir frá því að Hrafnhildur Hafsteinsdóttir, eiginkona hans, hafi fætt andvana barn á dögunum. Þau komust að því þegar að þau fóru í 20 vikna sónar að barnið væri látið. Þegar þau fóru í tólf vikna sónar blasti lítið kríli við. Gleðin og þakklætið var mikið og þau hjónin pældu í nafni.

Undirbúa viðbrögð við stórslysi

Viðbrögð við rútuslysi verða æfð næsta laugardag þegar stórslysaæfing læknanema verður haldin við slökkviliðstöðina í Hafnarfirði. Þar verður sett á svið slys þar sem hvert námsár hefur sitt hlutverk.

Kynningarbæklingurinn borinn út

Íslandspóstur hóf í morgun að bera út kynningarbækling Lagastofnunar Háskóla Íslands vegna þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-samningana á laugardaginn. Gert er ráð fyrir að bæklingurinn berist inn á meira en helming heimila landsins í dag og að verkinu ljúki á morgun.

Svanur varð fyrir flugvél

Dash-flugvél frá Flugfélagi Íslands hæfði svan á flugi við flugtak frá Ísafjarðarflugvelli í gærmorgun með þeim afleiðingum að svanurinn féll særður til jarðar. Fram kemur á fréttavef Bæjarins besta að svanurinn var dauður þegar starfsmenn Ísafjarðarflugvallar komu að honum. Flugvélin skemmdist ekki og hélt áfram ferð sinni til Reykjavíkur. Að sögn starfsmanns Flugfélags Íslands á Ísafirði er það sem betur fer afar sjaldan að svo stórir fuglar rekist á flugvélar.

Konur sópa að sér bókmenntaverðlaunum

Konur eru handhafar allra helstu bókmenntaverðlauna landsins fyrir fagurbókmenntir auk bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Ragnheiður Gestsdóttir var sú sjötta í röð skrifandi kvenna til að hljóta verðlaun og fagnar því hvað konur eru sterkar á ritvellinum.

Gunnar fær 300 þúsund krónur vegna meiðyrða

Þórarinn Hjörtur Ævarsson hefur verið dæmdur til að greiða Gunnari I. Birgissyni 300 þúsund krónur í bætur vegna ummæla í grein sem hann skrifaði í Morgunblaðíð þann 14. júní 2009. Yfirskrift greinarinnar var "Áskorun til Gunnars Birgissonar frá sjálfstæðismanni." Gunnar taldi að ummæli í greininni hafi verið til þess fallin að sverta ímynd sína og valda honum verulegum mannorðshnekki. Hann krafðist því einnar milljónar króna í bætur og að tiltekin ummæli yrðu dæmd dauð og ómerk.

Norðmenn halda til sjóræningjaveiða

Norðmenn ætla að blanda sér í baráttuna við sjóræningja undan ströndum Sómalíu með afgerandi hætti. Þeir ætla að senda fjögurra hreyfla Orion eftirlitsflugvél til Afríku en það eru fullkomnustu eftirlitsvélar sem völ er á.

Sparkaði í höfuð lögreglumanns

Karlmaður sparkaði í höfuð lögreglumanns þegar að verið var að handtaka hann í Hveragerði aðfaranótt sunnudagsins. Það var rétt fyrir klukkan tvö aðfaranótt sunnudags að óskað var eftir skjótri aðstoð lögreglu vegna átaka tveggja ölvaðra manna á heimili í Hveragerði.

Vonast eftir samningum áður en vikan er liðin

Aðilar vinnumarkaðarins munu í dag eða á morgun kynna stjórnvöldum breytingartillögur við útspili stjórnvalda frá því fyrir helgi. Vonast er til að nýr kjarasamningur til þriggja ára liggi fyrir áður en vikan er liðin, þar sem almennar launahækkanir verði yfir átta prósent á samningstímanum.

Helmingur þjóðarinnar ánægður með Ólaf Ragnar

Helmingur landsmanna er ánægður með störf Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, samkvæmt nýrri viðhorfskönnum.Tæpur þriðjungur er hvorki ánægður né óánægður með störf forsetans. Í könnun MMR á ánægju almennings með störf Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, kom í ljós að 17,0% þeirra sem tóku afstöðu til spurningarinnar voru mjög ánægðir með störf hans og 33,0% aðspurðra voru frekar ánægðir. Tæplega þriðjungur aðspurða sögðust hvorki ánægðir né óánægðir með störf forsetans. 11,7% þeirra sem tóku afstöðu til spurningarinnar sögðust frekar óánægðir og 8,1% voru mjög óánægðir með störf Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands. Mikill munur var á afstöðu eftir aldri, búsetu, stjórnmálaskoðun og stuðning við ríkisstjórnina. Ánægja með störf forsetans minnkar með hækkandi aldri. Þannig voru 59,2% þeirra sem tóku afstöðu til spurningarinnar í aldurshópnum 18-29 ára ánægðir með störf forsetans borið saman við 50,8% á aldrinum 30-49 ára og 40,4% á aldrinum 50-67 ára. Af þeim sem tóku afstöðu til spurningarinnar og búa á landsbyggðinni sögðust 54,2% ánægðir með störf forsetans borið saman við 47,5% sem búa á höfuðborgasvæðinu. Þá voru 75,1% þeirra sem sögðust kjósa Framsóknaflokkinn, ef kosið yrði nú, ánægðir með störf forsetans samanborið við 54,1% sjálfstæðismanna, 39,2% sem sögðust kjósa Vinstri græna og 24,3% stuðningsfólks Samfylkingarinnar. Af þeim sem styðja ríkisstjórnina sögðust 32,7% þeirra sem tóku afstöðu til spurningarinnar ánægðir með störf forsetans borið saman við 58,0% sem ekki styðja ríkisstjórnina. Sjá nánar á vef MMR.

Þakhluti rifnaði af Boeing þotu

Skelfing greip um sig meðal farþega í Boeing 737-300 þotu í Bandaríkjunum um helgina þegar hluti af þaki hennar rifnaði af. Vélin var á leið frá Phoenix til Sakramento með 123 farþega innanborðs. Farþegarnir sem voru næst gatinu segjast hafa séð í bláan himininn.

Keypti eldspýtur og lím - listinn allur birtur á morgun

Kostnaður Birnu Þórðardóttur vegna framboðs hennar til stjórnlagaþings var 11.564 krónur. Fyrir þessa upphæð keypti hún 500 eldspýtustokka, límstauta og límúða. "Vinna við álímingu og aðra framkvæmd var gefin. Gefendur: börn og vinir undirritaðrar," segir í skilagrein Birnu til Ríkisendurskoðunar. Með skilagreininni lét hún fylgja síðasta eldspýtustokkinn af þeim sem keyptur var vegna framboðsins. Sem kunnugt er náði Birna ekki kjöri. Ríkisendurskoðun ætlar á morgun, 5. apríl, að birta upplýsingar um þá sem hafa sent inn skilagreinar en kveðið var á um það í lögum um stjórnlagaþing að frambjóðendur skyldu skila inn uppgjöri. Skilafresturinn rann út 28. febrúar Lárus Ögmundsson, yfirlögfræðingur Ríkisendurskoðunar, sagði í samtali við Fréttatímann fyrir helgina að aðeins helmingur þeirra sem þegið hafa sæti í stjórnlagaráði hafi skilað upplýsingum um kostnað við framboð sitt. Þá sagði hann að alls hefðu aðeins 138 frambjóðenda skilað inn uppgjöri Ríkissendurskoðun hefur sent út ítrekun til frambjóðenda vegna skilagreinanna.

Láta meta áhrif lækkunar bensíngjalda

Gera má ráð fyrir að umferð hafi dregist saman um allt að 8% á fyrstu þremur mánuðum ársins samkvæmt tölum sem birtar voru á vef Vegagerðarinnar á föstudag.

Obama og Biden aftur í framboð

Barack Obama og Joe Biden varaforseti hafa tilkynnt að þeir munu báðir verða í framboði í forsetakosningunum árið 2012. Bandaríska fréttastofan CNN segir að þeir félagar hafi tilkynnt um þetta í fyrra lagi til þess að geta byrjað að safna strax safna fé til kosningabaráttunnar.

Karlmönnum með kvíða komið til bjargar

Hjálparsími Rauða krossins 1717 stendur fyrir átaki þessa vikuna undir yfirskriftinni ,,Geta pabbar ekki grátið?" Rauði krossinn segir að þetta sé vegna þess að margir finni fyrir fjárhagsáhyggjum um þessar mundir sem valdi miklum kvíða., streitu og jafnvel þunglyndi. Ekki megi gera lítið úr slíkum tilfinningum.

Vorhreingerning og næturlokanir í Hvalfarðargöngunum

Hvalfjarðargöngin verða lokuð í alls átta nætur í fyrri hluta aprílmánaðar vegna viðhalds og vorhreingerningar. Fyrsta næturlokunin verður í nótt, en um er að ræða tvær tarnir. Fyrri viðhalds- og hreingerningartörnin verður 5. til 8. apríl (aðfaranætur þriðjudags, miðvikudags, fimmtudags og föstudags) í 14. viku. Þá verða göngin lokuð frá miðnætti til kl. 6 að morgni. Síðari törnin verður 12. til 15. apríl, aðfaranætur þriðjudags, miðvikudags, fimmtudags og föstudags, í 15. viku.. Þá verða göngin einnig lokuð frá miðnætti til kl. 6 að morgni.

"Réttur transfólks á Íslandi er enginn"

"Meginástæðurnar fyrir stofnun nefndarinnar er sú að réttur transfólks á Íslandi er enginn," segir Anna Kristjánsdóttir sem situr í nýskipaðri nefnd velferðarráðherra sem gera á tillögur að úrbótum á réttarstöðu transfólks. "Það er ekki til einn einasti lagabókstafur um þessi mál auk þess sem nafnalögin eru hreinlega andstæð okkur enda ekki gert ráð fyrir því í nafnalögunum að kynferði fólks sé breytt í opinberum skjölum," segir Anna. Formaður nefndarinnar sem velferðarráðherra hefur skipað er Laufey Helga Guðmundsdóttir, tilnefnd af velferðarráðuneytinu. Aðrir nefndarmenn eru Skúli Guðmundsson, tilnefndur af innanríkisráðuneytinu, Óttar Guðmundsson, tilnefndur af landlæknisembættinu og Margrét Steinarsdóttir, tilnefnd af Mannréttindaskrifstofu Íslands. Anna er tilnefnd af samtökunum Trans Ísland. Eitt af því sem transfólk berst fyrir er að fá að breyta nafni sínu í opinberum skrám, og þar með á skilríkjum, í samræmi við eigin upplifun á kyni. Nafnalögin í mótsögn við sig sjálf Önnu finnst nafnalögin í raun vera í mótsögn við sig sjálf, en Anna bar hún karlmannsnafn áður en hún fór í kynleiðréttingu. Hún bendir á að í nafnalögunum segi að stúlku skuli gefið kvenmannsnafn en dreng skal gefa karlmannsnafn. Ennfremur segir þar: "Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama." Anna segir að yfirmenn hjá Þjóðskrá hafi verið jákvæðir í garð transfólks og að þar sé litið á aðgerð til leiðréttingar á kyni sem staðfestingu á að breyta megi nafni fólks. "Með áliti umboðsmanns Alþingis hefur sú regla verið útaukin og bætt svo að nú getur fólk fengið nafnabreytingu þegar langt er liðið á meðferðarferlið," segir Anna. Brothætt mál Hún bendir á að það skipti afar miklu að þeir aðilar sem kom að þessum málum séu jákvæðir. "Málið er brothætt og nægir að einhver einn aðili sé neikvæður og allt stöðvast í kerfinu og við lendum aftur í sömu vandamálum og fyrir 1995. Þá á ég aðallega við að hér er um að ræða langa keðju aðila sem koma að málinu og um leið og einn aðili verður neikvæður slitnar keðjan," segir Anna. Til eru nokkrar rannsóknir á stöðu transfólks í ýmsum ríkjum. Anna segir að Norðurlöndin hafi staðnað í þessum málum. "Svíþjóð, Noregur og Danmörk hafa dregist aftur úr öðrum Evrópuþjóðum á þessu sviði, en Finnland sem er með nýjustu löggjöfina á Norðurlöndunum er komið lítið lengra í þessum málum. Í dag þurfum við að horfa meira til annarra landa í Vestur-Evrópu til að sækja okkur fyrirmyndir," segir hún, þar sem nútímavæða þarf löggjöfina í nágrannalöndum okkar. Gert er ráð fyrir að nefndin sem Anna situr í skili tillögum til velferðarráðuneytisins fyrir árslok.

Sjá næstu 50 fréttir