Fleiri fréttir

Frakkar banna "Facebook" og "Twitter"

Frakkar hafa nú bannað notkun á orðunum "Facebook" og "Twitter" í útsendingu þar sem þeir telja viðstöðulausa notkun á þessum nöfnum í raun vera auglýsingu á vörunum sem nöfnin standa fyrir.

Blaðamannafundurinn í heild sinni

Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, boðaði til blaðamannfundar í dag í tilefni af því að á morgun verður mál Alþingis gegn honum þingfest fyrir Landsdómi.

Atli Gíslason: Virði skoðanir Geirs en er ósammála honum

Atli Gíslason, þingmaður utan þingflokks á Alþingi, segist virða skoðanir Geirs H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra en sé ósammála honum. Þingfesting í máli Alþingis gegn honum fer fram á morgun fyrir Landsdómi.

Tilnefningar til Grímunnar - Lér konungur með 10 tilnefningar

Tilnefningar til Grímuverðlauna 2011 í alls 16 flokkum sviðslista voru kunngjörðar í Borgarleikhúsinu í dag að viðstöddum fjölda sviðslistafólks, en alls komu 80 leiklistarverkefni til álita til Grímunnar í ár. Við verkin störfuðu yfir eitt þúsund listamenn, tæknifólk og starfsfólk leikhúsanna.

Boðar nýja stóriðjusamninga á komandi mánuðum

Iðnaðarráðherra sagði á Alþingi í dag alveg ljóst að samningar um stóriðju í Þingeyjarsýslum yrðu gerðir á komandi mánuðum. Þingmaður Sjálfstæðisflokks segir þetta enn eitt loforðið sem ríkisstjórnin geti ekki staðið við.

Hugsanlegt að tíu þúsund króna seðill verði framleiddur

Það kostar þrjár krónur að búa til eina krónumynt, en krónan hefur rýrnað mikið síðustu áratugi. Seðlabankastjóri segir að skoða þurfi hvort mynteiningar séu orðnar of litlar, og segir hugsanlegt að tíu þúsund króna seðill verði framleiddur.

Allir sem greinst hafa með HIV notuðu rítalín frá læknum

Allir þeir sprautufíklar sem greinst hafa HIV jákvæðir á þessu ári sprautuðu sig með rítalíni í æð sem ávísað var af læknum. Yfirlæknir smitsjúkdóma segir að hemja verði dreifingu rítalíns frá læknum í samfélagið strax.

Khat-málið: Íri áfram í gæsluvarðhaldi

Hæstiréttur Íslands staðfesti í dag að írskur ríkisborgari skuli sæta áfram gæsluvarðhaldi vegna gruns um aðild að innflutningi á tæpum sextíu kílóum af fíkniefinu Khat hingað til lands.

Eldur kom upp í raðhúsi við Miklubraut

Eldur kom upp í raðhúsi á gatnamótum Miklubrautar og Stakkahlíðar um klukkan hálf sex í dag. Mikinn reyk lagði frá húsinu en samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins var eldur laus í íbúð og tókst að slökkva hann fljótt og örugglega. Eldsupptök eru ókunn. Allar stöðvar voru sendar á vettvang en eldurinn virðist hafa verið minni en talið var í upphafi.

Geir fékk send blóm frá stuðningsmönnum

Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, fékk send blóm á tröppurnar heima hjá sér í gær. Þetta sagði hann á blaðamannafundi sem hann hélt á Grand hótel í dag vegna ákærunnar gegn sér, sem þingfest verður fyrir Landsdómi á morgun.

Vörnin hefur þegar kostað Geir 9 milljónir

Kostnaðurinn strax kominn í níu milljónir, sagði Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, á blaðamannafundi í dag. Stuðningsmannafélag hefur verið stofnað fyrir Geir til þess að standa straum af kostnaði við málið. Geir og Andri Árnason verjandi hans eru með fjölda manna á sínum snærum til að vinna að vörnum við málið.

Tilmæli um bönd í blöðrum

Neytendastofa beinir þeim tilmælum til söluaðila og foreldra að huga að böndum á blöðrum nú þegar styttist í 17. júní. Fram kemur í tilkynningu að börn geti viljandi eða óviljandi vafið slíkum böndum um háls sér með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Lengri bönd geti auk þess skapað hættu á kyrkingu.

100 reiðhjól verða boðin upp

Um 100 reiðhjól verða boðin upp hjá óskilamunadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu næstkomandi laugardag, 11. júní, klukkan 11. Um er að ræða reiðhjól sem hafa fundist í óskilum víða í umdæminu og enginn hefur hirt um að sækja.

Geir segist eiga við ofurefli að etja

"Ég vísa öllum ákæruatriðum á bug. Þau eru fráleit, sérstaklega í ljósi þess að ákvarðanir minnar ríkisstjórnar í aðdraganda bankahrunsins reyndust réttar. Ákæruskjalið er þannig samið að nausynlegt er að láta á það reyna hvort það standist réttarfarslegar reglur," segir Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, á blaðamannafundi, sem nú fer fram. Hann segist ætla að krefjast frávísunar í málinu við fyrsta tækifæri og að um pólitíska atlögu sé að ræða.

Slasaðist á torfæruhjóli

Maður slasaðist á torfæruhjóli er hann var að æfa sig á æfingasvæði við Hrísmýri á Selfossi um miðjan dag í gær. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á slysasdeild Landspítala. Talið var að hann hafi rifbeinsbrotnað og ef til vill hlotið innvortis blæðingar. Samkvæmt upplýsingum frá slysadeild Landspítalans er maðurinn kominn aftur heim.

Háskólinn á Akureyri aldrei vinsælli

Umsóknir um skólavist við Háskólann á Akureyri hafa aldrei verið fleiri en umsóknarfrestur rann út í gær. Alls sóttu 1030 manns um skólavist og er þetta í fyrsta sinn sem umsóknir eru fleiri en þúsund. Flestir vilja komast að í hjúkrunarfræði, viðskiptafræði og sálfræði.

Sérfræðiaðstoð fyrir 555 milljónir

Íbúðalánasjóður keypti sérfræðiaðstoð af einstaklingum og lögaðilum fyrir um 555 milljónir á tímabilinu 2001-2008. Árið 2008 var kostnaðurinn rúmar 100 milljónir. Þetta er meðal þess fram kemur í svari Guðbjarts Hannessonar, velferðarráðherra, við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.

Þremur bifreiðum stolið í Þorlákshöfn

Sá fátíði atburður átti sér stað um helgina að þremur bifreiðum var stolið í því sem virðist vera þrjú óskyld atvik, og það allt á Þorlákshöfn.

Ferðamenn geta skráð sig í gagnagrunn utanríksráðuneytisins

Íslenskir ríkisborgarar sem ferðast til útlanda eða dvelja erlendis í lengri eða skemmri tíma geta nú skráð upplýsingar þar að lútandi á heimasíðu utanríkisráðuneytisins. Fyrirkomulag þetta er sérstaklega hugsað fyrir þá sem fara til fjarlægari heimshluta eða svæða þar sem af einhverjum ástæðum má ætla að sé viðsjárvert ástand. Upplýsingarnar eru færðar í þar til gerðan gagnagrunn og geymdar á meðan á dvölinni stendur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu. Ráðuneytið hefur á undanförnum árum ítrekað þurft að virkja neyðaráætlun sína vegna hamfara eða annars hættuástands erlendis. Stór þáttur í því starfi sem þá hefst er að hafa samband við alla íslenska ríkisborgara sem kunna að vera staddir á viðkomandi svæði. Gagnagrunninum er ætlað að auðvelda ráðuneytinu að ná sambandi við þá einstaklinga sem hafa skráð sig, auk þess sem við slíkar aðstæður er hægt að kalla eftir því að Íslendingar sem eru á hættusvæði og hafa ekki þegar skráð sig í grunninn, fari á netið og skrái sig. Er litið svo á að þetta kunni að reynast mikilvægt þar sem við slíkar aðstæður eru gjarnan vandamál með símasamband, en netið virkar. Gagnagrunnurinn telst eign utanríkisráðuneytisins og verða upplýsingar úr grunninum ekki veittar til þriðja aðila nema öryggi þeirra sem skráðir eru í gagnagrunninn krefjist þess. Upplýsingar í grunninum verða aðeins notaðar í öryggisskyni og til að utanríkisráðuneytið eða íslenskt sendiráð geti náð sambandi við viðkomandi. Þeim sem hyggja á ferðalög til viðsjárverðra svæða er sérstaklega bent á að skrá sig en öllum sem vilja láta vita af sér er það velkomið.

Tuttugu gróðurhúsalömpum stolið

Tuttugu gróðurhúsalömpum var stolið úr gróðurhúsi Flúðajöfra á Flúðum aðfaranótt sunnudags. Þar sást til Nissan Terrano jeppabifreiðar.

Þriðja leið Hreyfingarinnar rædd á Alþingi

Þór Saari þingmaður Hreyfingarinnar mælir í dag fyrir Þriðju leiðinni, frumvarpi flokksins um stjórn fiskveiða. Eftir það mun málið ganga til sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Í tilkynningu frá Hreyfingunni segir að nefndin ætli að standa fyrir kynningu á þeim sjávarútvegsmálum sem hún fær til meðferðar og í framhaldi af því ætla þingmenn Hreyfingarinnar að leggja fram þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórn fiskveiða „þar sem valið standi á milli óbreytts ástands, leiðar ríkisstjórnarinnar eða leiðar Hreyfingarinnar."

Um 1200 styðja Geir

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, og Einar Karl Haraldsson, fyrrverandi aðstoðarmaður Össurar Skarphéðinssonar, eru meðal þeirra sem styðja Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, vegna ákæru á hendur honum fyrir brot á lögum um ráðherraábyrgð. Fjöldi fólks hefur skráð sig á vefsíðu sem opnuð hefur verið til stuðnings Geir en hátt í 1200 höfðu skráð nafn sitt á síðuna um klukkan tvö í dag.

Áralangri baráttu fyrir austurrísku leiðinni að ljúka

„Auðvitað fagna ég því að þetta sé vonandi að komast á endapunkt," segir Kolbrún Halldórsdóttir um afgreiðslu allsherjarnefndar á frumvarpi um hina svonefndu austurrísku leið. Þegar Kolbrún sat á Alþingi lagði hún ítrekað fram frumvarp þess efnis en aldrei komst það í gegn. Hún sér því nú fyrir lok áralangrar baráttu fyrir því að lögregla fái heimild til að fjarlægja ofbeldismenn af heimili sínu, í stað þess að brotaþoli þurfi að flýja. Stór hluti þeirra kvenna sem dvelst í Kvennaathvarfinu er þar eftir að hafa flúið ofbeldismanninn og þar með heimili sitt. Eftir mikla fjölgun kvennaathvarfa var farin sú leið að fjarlægja ofbeldismanninn af heimilinu í stað þess að brotaþoli þurfi að flýja, og hefur þessi leið því verið kölluð austurríska leiðin í þeim löndum sem síðar tóku hana upp. Kolbrún leggur áherslu á nauðsyn þess að löggjafinn vinni málið þannig að aðgengilegt verði fyrir löggæsluyfirvöld að koma þessu ákvæði í framkvæmd. „Ákvæði um refsingar við klámi og nauðgunum sem eiga að vernda fólk gegn kynferðisofbeldi hafa ekki virkað, og hefur löggæslan borið því við að löggjafinn hafi útfært reglurnar svo illa að erfitt sé að fara eftir þeim. Ég vona að þetta verði ekki eitt af þeim dæmum. Markmiðið er jú að koma í veg fyrir ofbeldið," segir Kolbrún. Hún viðurkennir að það sé mikið inngrip í líf gerandans að fjarlægja hann af eigin heimili. „Austurríska leiðin er skref í rétta átt. Þetta er alvarlegt inngrip í líf gerandans, í líf ofbeldismannsins, en svo virðist sem lög og reglur þurfi að taka á gerandanum til að þau hafi áhrif. Aðgerðirnar þurfa að brenna á hans skinni," segir Kolbrún.

Grænfriðungar fá risareikning

Skoska fyrirtækið Cairn Energy krefur Grænfriðunga um 320 milljónir íslenskra króna fyrir hvern dag sem þeir trufla boranir á olíuborpallinum Leifi Eiríkssyni undan strönd Grænlands.

Strauss-Kahn segist saklaus

Dominique Strauss-Kahn lýsti sig í dag saklausan af ákærum sem bornar hafa verið á hann en hann er sagður hafa nauðgað þjónustustúlku á hóteli í New York. Réttarhöldin Strauss-Kahn, sem er fyrrum forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hófust í New York í dag. Hann mætti til dómshússins í fylgd eiginkonu sinnar Anne Sinclair sem er sjónvarpsfréttakona í Frakklandi. Hópur starfsmanna hótelsins þar sem nauðgunin á að hafa átt sér stað mættu á staðinn og hrópuðu að Strauss-Kahn þegar hann gekk inn í salinn. Með þessu vildu þau sýna þjónustustúlkunni stuðning sinn í verki.

Geir boðar til blaðamannafundar

Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra hefur boðað blaðamenn á sinn fund í dag klukkan fjögur. Í tilkynningu segir að tilefnið sé væntanleg þingfesting landsdómsmálsins gegn Geir sem fram fer á morgun.

Mamma er ekki fyrsta orðið

Það hefur verið viðtekinn sannleikur að fyrsta orðið sem börn segja er "mamma." Ekki lengur. "Mamma" er að meðaltali fjórtánda orðið sem börn segja, ef marka má niðurstöðu þrjátíu ára rannsókna við Syddansk Universitet. Rannsóknin náði til 6.112 barna á aldrinum 8-36 mánaða. Auk þess var stuðst við viðtöl við foreldra á þrjátíu ára tímabili.

Vel heppnuð hátíð á Patreksfirði

Hátíðarhöld og skemmtanahald vegna sjómannadagsins fóru vel fram í umdæmi lögreglunnar á Vestfjörðum og er talið að íbúafjöldi hafi að minnsta kosti tvöfaldast á Patreksfirði um helgina en hátíðarhöld stóðu frá fimmtudegi til sunnudags. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Vestfjörðum.

Sigmundur Davíð vill úttekt á Seðlabankanum

Formaður Framsóknarflokksins segir nauðsynlegt að gera úttekt á Seðlabanka Íslands, eftir að bankinn þurfti að leiðrétta upplýsingar sínar um stöðu þjóðarbúsins, sem sé hundruð milljörðum verri en fyrri upplýsingar bankans gáfu til kynna. Fjármálaráðherra segir ástæuðulaust að fara á taugum vegna þessa.

Nefskatturinn nær ekki til myndlykla

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, segir langsótt að ætlast til þess að útvarpsgjald ber þann kostnað sem til fellur þegar almenningur þarf að leigja myndlykla til að ná útsendingum Ríkissjónvarpsins. Það sama eigi við um myndlykla og sjónvarpstæki. Gjaldið nái ekki til sjónvarpskaupa.

Stuðningsmenn Geirs opna heimasíðu

Vefsíða hefur verið opnuð til stuðnings Geirs H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, vegna ákæru á hendur honum fyrir brot á lögum um ráðherraábyrgð.

Steingrímur segir að kynslóð hans hafi brugðist

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að hans kynslóð stjórnmálamanna hafi brugðist í aðdraganda kreppunnar á Íslandi og hún megi ekki bregðast þjóðinni aftur í uppbyggingunni. Í fyrirlestri á Írlandi sagði hann nýja ríkisstjórn landsins eiga að búa sig undir að verða óvinsæl vegna nauðsynlegra aðgerða.

Margrét Pála heiðruð við útskrift MBA-nema

Háskólinn í Reykjavík brautskráði 32 nemendur með MBA-gráðu um helgina. Athöfnin fór fram í aðalbyggingu HR í Nauthólsvík og voru um 200 gestir viðstaddir athöfnina. Fyrir fjórum árum var tekin upp sú nýbreytni að nemendur í MBA-námi kjósa þann samnemanda sinn sem þeim finnst hafa lagt mest af mörkum til annarra nemenda. Sá nemandi sem hlaut þessi verðlaun í ár var Margrét Pála Ólafsdóttir, stofnandi og fræðslustjóri Hjallastefnunnar, og tók hún við verðlaunum úr hendi Eggerts B. Guðmundssonar, forstjóra HB Granda og stjórnarmanns í Viðskiptaráði. Þess má til gamans geta að fyrir þremur árum var Margrét Pála fulltrúi viðskiptalífsins við MBA-útskrift Háskólans í Reykjavík og ákvað hún í kjölfarið að sækja um í námið.

Mennirnir sem urðu eftir úti á sjó bera sig báðir vel

"Þetta er svona það versta sem maður kemst í að leita að félögum sínum á sjó," segir varaformaður Björgunarsveitarinnar Húna á Hvammstanga en tveir liðsmenn sveitarinnar urðu eftir í sjó í um fjörutíu mínútur í gær. Mennirnir voru nokkuð þrekaðir þegar þeir fundust en hafa nú báðir náð sér nokkuð vel.

Styttist í ákvörðun um nýtt fangelsi

„Útboðsgögn eru því sem næst tilbúin eftir því sem ég best veit þannig að það styttist í ákvarðanatöku,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, í umræðum Alþingi í dag um byggingu nýs fangelsis. Ekki liggur fyrir hvort um opinbera framkvæmd eða einkaframkvæmd verði að ræða.

Töluverð hreyfing komin á fjárfesta

Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, segir samkeppni um orku sem framleidd er hér á landi ánægjulega. Landsvirkjun telji eftirspurnina vera um 1600 megavött. „Auðvitað verður ekki framleitt það mikið af orku á komandi árum en það er ánægjulegt að eftirspurnin skuli vera eins mikil og raun ber vitni.“

Hlupu með sundgleraugu og buff

Hjónin sem hlaupa til styrktar krabbameinssjúkum börnum fóru frá Klaustri í gær og fengu nokkuð öskufok á Skeiðarársandi. Vegna þessa þurftu þau að vera með buff fyrir vitunum og sumir settu jafnvel upp sundgleraugu. Sveinn Benedikt Rögnvaldsson, sést hér á myndinni hlaupa í sandfokinu. Sveinn hefur ásamt Signýju Gunnarsdóttur eiginkonu sinni fylgst syni sínum í gegn um erfiða meðferð við hvítblæði. Þau hlaupa hringinn í kring um landið ásamt systur Sveins og mági, Ölmu Maríu Rögnvaldsdóttur og Guðmundi Guðnasyni.

Rauðklædd lið vinna frekar

Að horfa á rauðan lit gefur aukinn kraft og snerpu, en eykur jafnframt áhyggjur og dregur úr einbeitingu, samkvæmt niðurstöðum vísindamanna sem birtar eru í vísindaritinu Emotion.

Japanska og sjúkraþjálfun í Háskóla unga fólksins

Um 300 krakkar á aldrinum 12-16 ára settust á skólabekk í Háskóla Íslands í morgun þegar Háskóli unga fólksins var settur í áttunda sinn. Skólinn stendur yfir dagana 6. - 10. júní og er nemendum boðið upp á fjölbreytt námskeið í greinum sem kenndar eru við Háskóla Íslands. Guðrún Bachmann, skólastjóri Háskóla unga fólksins, setti skólann að viðstöddum fríðum hópi nemenda og sagði hún Háskóla unga fólksins vera árvissan sumarboða í starfi Háskóla Íslands og alltaf mikil eftirvænting í lofti á þeim tíma. Að setningu lokinni hófst kennsla en hún fer fram víða á háskólasvæðinu. Nemendur gátu valið á milli 36 námskeiða og hafa þeir sjálfir raðað saman sinni eigin stundatöflu. Meðal námskeiða sem kennd eru í skólanum eru stjörnufræði, sjúkraþjálfun, japanska, sálfræði, franska, frumkvöðlafræði, lögfræði og jarðfræði. Kennsla fer fram á milli kl. 9 og 15 alla dagana en miðvikudaginn 8. júní er þemadagur þar sem nemendur hafa valið sér eina námsgrein fyrir allan daginn. Háskóla unga fólksins lýkur föstudaginn 10. júní með veglegri lokahátíð á Háskólatorgi. Háskóli unga fólksins hefur verið starfræktur í júnímánuði allt frá árinu 2004 og óhætt er að segja að það lifni yfir háskólasvæðinu þegar fróðleiksfúsir og fjörugir krakkar leggja það undir sig. Námskeiðin sem hafa verið kennd við Háskóla unga fólksins skipta mörgum tugum og brautskráðir nemendur skólans eru hátt í tvö þúsund. Skólinn er með óvenju viðamiklu sniði í ár þar sem Háskóli Íslands fagnar aldarafmæli á árinu. Þannig hefur Háskóli unga fólksins farið um landið með Háskólalestinni svokölluðu síðustu vikur og heimsótt fimm bæjarfélög. Þar hefur grunnskólanemum verið boðið upp á valin námskeið úr skólanum og bæjarbúum á hverjum stað boðið í vísindaveislu. Háskólalestin heldur áfram ferð sinni í ágúst.

Yfirlýsing frá Björgunarsveitinni Húna vegna óhapps

Vegna óhapps sem varð við skemmtidagskrá Sjómannadagsins á Hvammstanga vill stjórn Björgunarsveitarinnar Húna koma eftirfarandi á framfæri: "Sem hluti af skemmtisiglingu var sett á svið björgun úr sjó þar sem nokkrir björgunarsveitarmenn í flotgöllum stukku í sjóinn til skiptis af fiskibátum sem einnig tóku þátt. Að lokinni æfingunni þegar snúið var til lands atvikaðist það að tveir menn stukku í sjóinn af öðrum fiskibátnum án þess að nokkur úr áhöfnum björgunarsveitarbáta sæi til. Þegar bátarnir voru á landleið var ljóst að tvo menn vantaði. Brugðist var mjög skjótt við og allir bátar sendir til leitar. Fundust mennirnir eftir um tuttugu mínútna leit og höfðu þá verið í sjónum um fjörtíu mínútur samtals.“ Þá segir einnig í yfirlýsingu frá björgunarsveitinni: "Einnig viljum við koma því á framfæri að þegar fréttamenn byrjuðu að leita til forsvarsmanna Björgunarsveitarinnar með fréttir af málinu óskuðum við eftir smá fresti til þess að fara yfir málið í okkar hópi og átta okkur á því hvernig þetta gerðist til að geta gefið réttar upplýsinga um atvikið. Ekki var sá frestur veittur og óljósar, óstaðfestar og beinlínis rangar fréttir af atburðarás birtar án þess að við fengjum að koma staðreyndum málsins á framfæri.“

Mikið öskufok truflar umferð fyrir austan

Mikið öskufok er nú í Fljótshverfi, austan við Kirkjubæjarklaustur, þar sem skyggni er innan við 100 metra og aðeins sést milli tveggja stika á vegi. Eru vegfarendur því beðnir um að taka tillit til þess og gæta varúðar þegar ekið er um svæðið.

Prófessor á Alþingi

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, tók sæti í fyrsta sinn á Alþingi í dag. Baldur er fyrsti varaþingmaður Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður í fjarveru Marðar Árnasonar sem getur ekki sinnt þingstörfum af persónulegum ástæðum.

Þjóðaratkvæði um þjóðkirkjuna

"Það var niðurstaða okkar að stefna þangað strax,“ segir Illugi Jökulsson, fulltrúi í stjórnlagaráði. Sú nefnd stjórnlagaráðs sem meðal annars fjallar um trúmál hefur lagt til að þjóðin fái að ákveða það í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort hin evangelísk lúterska kirkja verði áfram þjóðkirkja á Íslandi.

Bensínstuldur olli eignaspjöllum

Eignaspjöll voru unnin á flugvellinum á Hellu þegar reynt var að stela þar bensíni um helgina. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Hvolsvelli.

Sjá næstu 50 fréttir