Sindri talinn höfuðpaurinn
Sindri Þór Stefánsson var dæmdur til fjögurra og hálfs árs fangelsisvistar í Héraðsdómi Reykjaness í dag vegna Bitcoin-málsins svokallaða. Málið varðar stórfelldan þjófnað á tölvubúnaði úr gagnaverum í desember 2017 og janúar 2018. Sjö voru ákærðir og dæmdir í málinu. Sindri hlaut þyngstu refsinguna enda var það niðurstaða dómsins að hann hafi verið höfuðpaurinn. Matthías Jón Karlsson var dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi, einn var dæmdur í tuttugu mánaða fangelsi og tveir í átján mánaða fangelsi. Aðrir fengu vægari dóma. Öllum sakborningum var gert að greiða tæknifyrirtækinu Advania rúmar 33 milljónir króna í skaðabætur. Lögmaður Sindra segir líklegt að dómnum verði áfrýjað.