Grindhvalir við Akranes
Grindhvalavaða er núna rétt fyrir utan Akranes og sést hún vel frá bænum. Valentínus Ólason, íbúi á Akranesi, segist í samtali við Vísi hafa fylgst með henni úr stofuglugganum hjá sér. Lögreglan á Akranesi hafði einnig orðið vör við hvalina. Lögreglumaður sem Vísir talaði við sagði að um væri að ræða á bilinu 100 - 200 dýr. Þau munu hafa verið svamlandi fyrir utan bæinn frá því snemma í morgun.