Innlent

Um fjórtán þúsund atvinnulausir - SA segir ástandið ólíðandi

Vilhjálmur Egilsson, formaður Samtaka atvinnulífsins.
Vilhjálmur Egilsson, formaður Samtaka atvinnulífsins.

Um hádegisbil í gær voru 13.923 án atvinnu á Íslandi skv. vef Vinnumálastofnunar.

Samtök atvinnulífsins (SA) telja þetta ólíðandi og hafa lagt fram ítarlega aðgerðaáætlun um uppbyggingu atvinnulífsins og útrýmingu atvinnuleysis samkvæmt tilkynningu frá samtökunum. SA óska eftir samstarfi við ábyrga aðila um að hefjast handa við að kveða atvinnuleysið niður.

Flestir kjarasamningar á almenna og opinbera markaðnum renna út í lok þessa mánaðar eða þess næsta. Samtök atvinnulífsins hafa lagt áherslu á að stefnt verði að gerð kjarasamninga allra aðila til þriggja ára með með hóflegum launahækkunum.

Forsenda þess er að verðbólga verði lág og séð verði fram á styrkingu krónunnar. Sameiginleg markmið verði auknar fjárfestingar og vöxtur, einkum í útflutningsgreinum, og fjölgun starfa. Þar með verði hægt að komast út úr vítahring skattahækkana og niðurskurðar.

Mögulegt samstarf aðila vinnumarkaðarins í komandi kjarasamningaviðræðum var rætt á sameiginlegum fundi síðdegis í gær.

Magnús Pétursson, ríkissáttasemjari, stýrði fundinum en fulltrúar bæði almenna og opinbera markaðarins sóttu fundinn.

Á fundinum kynntu Samtök atvinnulífsins kjarastefnu samtakanna og undirstrikuðu mikilvægi þess að samstaða skapist um að skapa störf, auka kaupmátt fólks og koma Íslandi út úr kreppunni.

Ríkissáttasemjari mun á næstu tveimur vikum kalla eftir sjónarmiðum þeirra fjölmörgu samtaka sem eru á vinnumarkaðnum og kanna hvort grundvöllur sé fyrir því ræða sameiginlega um tiltekin mál og leggja grunn að endurreisnaráætlun á vinnumarkaði. Stefnt er að öðrum fundi eftir hálfan mánuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×