Upp­gjör og við­töl: Grótta - ÍR 24-25 | ÍR vann í dramatískum leik

Dagur Lárusson skrifar
Sara Dögg að taka víti í fyrri leik liðanna í vetur.
Sara Dögg að taka víti í fyrri leik liðanna í vetur. Vísir/Pawel

ÍR vann dramatískan sigur á Gróttu í Olís-deild kvenna í dag í sannkölluðum botnbaráttuleik.

Fyrir leik var Grótta í neðsta sæti deildarinnar með fjögur stig á meðan ÍR var tveimur sætum ofar með sjö stig. ÍR vann fyrri leik liðanna í deildinni í vetur.

Fyrri hálfleikurinn var gríðarlega jafn og var sjaldan meira en eins marks munur á liðunum. Það var þó yfirleitt ÍR sem var yfir en það breyttist á lokakaflanum þegar Grótta tók við sér. Grótta skoraði hvert markið á fætur öðru og meðan lítið sem ekkert gekk upp hinum megin hjá ÍR. Grótta fór því með forystuna í hálfleikinn, 16-13.

Það var ljóst alveg frá fyrstu mínútu seinni hálfleiks að ÍR ætlaði sér að mæta í baráttu í seinni hálfleikinn og það varð raunin. Það leið ekki á löngu fyrr en ÍR var búið að jafna leikinn og tók þá Júlíus Þórir Stefánsson, þjálfari Gróttu, leikhlé til þess að reyna að stilla saman strengi.

ÍR var komið í tveggja marka forystu á tímabili en tókst aldrei að gera forystuna stærri og því varð lokakaflinn æsispennandi. Þegar um ein og hálf mínúta var eftir var staðan orðin jöfn og Grótta var með boltann. Grótta fór hins vegar illa að ráði sínu og náði ekki að nýta sér þessa sókn. Þess í stað fékk ÍR hraðaupphlaup og náði forystunni á ný, staðan orðin 24-25. 

Grótta fékk aðra sókn til þess að reyna að jafna metin en allt kom fyrir ekki og því fagnaði ÍR dramatískum og mikilvægu sigri í botnbaráttunni í Olís-deildinni.

Atvik leiksins

Atvik leiksins var klárlega þegar Grótta fékk kjörið tækifæri til þess að komast yfir undir lokin en síðan einnig að jafna metin í næstu sókn en það átti ekki að verða. 

Stjörnurnar og skúrkarnir

Ída Margrét var algjörlega frábær í liði Gróttu og skoraði níu mörk en hún fór fyrir liði sínu í dag hvað varðar markaskorun en einnig baráttu. Svo var það Sylvía Sigríður sem spilaði einstaklega vel fyrir ÍR í dag.

Dómararnir

Dómararnir þurftu að sýna rauða spjaldið í leiknum og stóðu í ströngu oft á tíðum þar sem það var mikið um átök og tilfinningar í þessum leik. Þjálfarar beggja liða fengu gul spjöld en allt í allt held ég að dómararnir hafi staðið sig vel.

Stemning og umgjörð

Stemningin var algjörlega upp á tíu. Oft er það þannig að maður vill sjá fleira fólk í stúkunni en núna er ég ekki viss um að það hefði komist fleira fólk í stúkuna. Algjörlega til fyrirmyndar.

Sólveig Lára Kjærnested: Unnum þennan leik á varnarleiknum í seinni

Sólveig Lára á hliðarlínunni.vísir/Hulda Margrét

Sólveig Lára Kjærnested, þjálfari ÍR, var að vonum ánægð eftir dramatískan sigur síns liðs gegn Gróttu í dag.

„Við unnum þennan leik með frábærum varnarleik í seinni hálfleiknum,“ byrjaði Sólveig á að segja.

„Við fundum okkur loksins í varnarleiknum í seinni en í þeim fyrri vorum við passífar og það var langt á milli manna og við vorum í heildina bara ólíkar okkur,“ hélt Sólveig áfram að segja.

„Við þéttum okkur í seinni og þá kom neistinn.“

Sólveig talaði um karakterinn í liðinu.

„Við höfðum trú á þessum allann tímann og þó svo að við vorum ólíkar okkur þá vissum við að við gætum alltaf unnið þennan leik. Það er svo sannarlega karakter í þessu liði og mér finnst við sýna það oft,“ endaði Sólveig Lára á að segja eftir leik.

Júlíus Þórir Stefánsson: Grátleg niðurstaða

Júlíus Þórir Stefánsson þjálfari Gróttu ásamt aðstoðarmanni sínum Davíð Erni Hlöðverssyni.Grótta/Eyjólfur Garðarsson

Júlíus Þórir Stefánsson, þjálfari Gróttu, var vonsvikin í leikslok eftir tap síns liðs gegn ÍR.

„Já, þetta er grátleg niðurstaða, það er ekki hægt að neita því. Við ætluðum okkur miklu meira hérna í dag,“ byrjaði Júlíus að segja.

„Fyrstu viðbrögðin mín núna þegar það eru nokkrar mínútur frá því að leikurinn kláraðist er að við erum enn sjálfum okkur verstar í raun. Við förum með töluvert af dauðafærum og við gerum klaufamistök inn á milli og það er eitthvað sem við þurfum að skoða,“ hélt Júlíus áfram að segja.

Júlíus vildi þó taka það fram hversu stoltur hanni væri af liði sínu.

„En fyrst og fremst er ég einstaklega stoltur af stelpunum og ég er ótrúlega ánægður með það hvernig þær mættu í þennan leik. Við erum búin að vera í svolítið erfiðu prógrami og þær komu og gáfu allt í þetta, það var allt skilið eftir á gólfinu.“

„Því miður dugði þetta ekki í dag. Við erum í þannig stöðu að við tökum hvaða stigi sem er, hvernig sem það kemur og þess vegna er erfitt að kyngja þessu. Við verðum bara að hrista þennan leik fljótt af okkur og mæta með sömu baráttu í næsta leik,“ endaði Júlíus á að segja.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira