
Sífellt erfiðara fyrir almenning að eignast þak yfir höfuðið
Á síðustu 15 árum hafa aðgerðir og aðgerðarleysi yfirvalda torveldað venjulegu fólki að eignast húsnæði. Markmið yfirvalda hefur ekki verið að þrengja að möguleikum fólks til að eignast þak yfir höfuðið heldur hafa önnur markmið ráðið för án þess að huga að áhrifum þeirra á húsnæðismarkaðinn. Með því að herða útlánareglur til íbúðakaupa, takmarka lóðaúthlutanir og þyngja regluverk skipulagsmála er svo komið að sveitarfélög ráða ekki við að uppfylla skyldur sínar um að tryggja nægt framboð á húsnæði. Þessi staða hefur skapað íbúðaskort og hækkað verð fasteigna langt umfram annað verðlag, sem síðan ýtir upp vöxtum á íbúðlánum. Afleiðingin er að íbúðaskortur eykst, húsnæðisliður viðheldur hárri verðbólgu og launafólk ræður ekki við að kaupa sína fyrstu eign.