Innlent

Ríkið í skuld við sveitarfélögin

Ríkisvaldið er í skuld við sveitarfélögin að mati Össurar Skarphéðinssonar, formanns Samfylkingarinnar, en hvorki Árni Magnússon félagsmálaráðherra né Geir H. Haarde eru tilbúnir til að greiða hana. Hann sagði í umræðu á Alþingi í gær að fulltrúar sveitarfélaganna kvörtuðu sáran undan því að illa gangi í samningum við ríkið um breytingar á tekjuskiptingu milli þeirra og ríkisins. Össur sagði fjárhagsstöðu sveitarfélaganna alvarlega, enda hafi 71 sveitarfélag verið rekið með tapi á síðasta ári og eftirlitsnefnd með fjárhag þeirra hafi talið ástæðu til að skoða sérstaklega fjárhagsstöðu 23 þeirra. Árni Magnússon, félagsmálaráðherra var til andsvara og sagði að ríkisvaldið hefði nú þegar komið til móts við óskir sveitarfélaganna. Tekjur þeirra hefðu hækkað með hækkun útsvarsheimilda. Ef þær væru fullnýttar gæti það skilað sveitarfélögunum fimm milljörðum króna á ári. Hækkun framlaga ríkisins í jöfnunarsjóð sveitarfélaga hefðu numið 2,9 milljörðum frá árinu 1999. Auk þess hefðu ýmsar breytingar verið gerðar sem spöruðu sveitarfélögunum um 600 milljónir króna á ári. Því taldi Árni fráleitt að halda því fram að ekkert hafi verið gert til að laga fjárhagsstöðu sveitarfélaganna. Össur Skarphéðinsson, sagði þetta ekki duga til og að skilningsleysi ríkisstjórnarinnar neyddi sveitarfélögin til að hækka gjöld eða grípa til niðurskurðar á velferðarþjónustu. Ríkisstjórnin væri því í raun að knýja þau til skattahækkana. Það verði að hans sögn á ábyrgð sömu ríkisstjórnar og boði skattalækkanir upp á 39 milljarða á kjörtímabilinu. Gunnar Birgisson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og formaður bæjarráðs í Kópavogi, sagði fjárhagsvanda sveitarfélaganna þrískiptann. Í fyrsta hefðu sveitarfélögin aukið þjónustuna og útgjöld þeirra myndu aukast mikið vegna nýs kjarasamnings kennara. Í þriðja lagi hefðu lög verið samin á þingi og reglugerðir í ráðuneytum sem hefðu aukið útgjöld sveitarfélaga eða minnkað tekjur þeirra. Þann þátt taldi Gunnar nauðsynlegt að leiðrétta.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×