Innlent

Hneyksli of vægt orð

Ögmundur Jónasson, formaður þingflokks vinstri-grænna, segir að orðið hneyksli sé of vægt til að lýsa niðurskurði á framlögum til Mannréttindaskrifstofu við afgreiðslu fjárlaga um helgina. "Ef það er hefndarhugur vegna athugasemda Mannréttindaskrifstofu við við frumvörp í öryggismálum og útlendingamálum og fjölmiðlafrumvarpið, þá eru þessir menn smærri í sniðum en mann hafði órað fyrir. Við erum komin á alvarlega braut ef stofnanir þurfa að starfa með refsivöndinn yfir sér". Björn Bjarnason dómsmálaráðherra sagði einfaldlega rangt að ákveðið hefði verið að fella opinberan stuðning við skrifstofuna niður. "Ég hef ekki neinna harma að hefna gagnvart skrifstofunni og finnst miður, ef einhver telur að svo sé." Björn bendir á að hann hafi sem blaðamaður verið sakaður um að skaða viðskiptahagsmuni Íslands með gagnrýni á einræðið í Sovétríkjunum. "Þá er ég félagi í Amnesty International á Íslandi meðal annars vegna þess, að það telur sér til tekna að vera hvergi háð opinberum framlögum til starfsemi sinnar."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×